Katrín Júlíusdóttir birtist úr heldur óvæntri átt í upphafi vikunnar þegar hún tók við spennusagnaverðlaununum Svartfugli fyrir bókina Sykur sem er hennar fyrsta skáldsaga og frumraun á glæpaskáldsagnabrautinni.

Hún gengst fúslega við því að hafa falið glæpahneigð sína fyrir umheiminum um nokkurt skeið en hún byrjaði á bókinni fyrir rúmum fjórum árum, um það leyti sem hún sagði skilið við stjórnmálin 2016.

Pólitískt sakavottorð

„Ég byrjaði nefnilega á þessu fyrir rúmlega fjórum árum en skipti síðan um starfsvettvang og ýmislegt þannig að hún lá bara hálfkláruð í dálítið langan tíma,“ segir Katrín sem hrökk í gang þegar hún ákvað að taka þátt í samkeppninni sem er runnin undan rifjum glæpasagnahöfundanna Yrsu Sigurðardóttur og Ragnars Jónassonar og ætluð höfundum sem hafa ekki áður sent frá sér glæpasögu.

Katrín er fyrrverandi varaformaður Samfylkingarinnar, þingmaður og ráðherra fjármála- og iðnaðar en er nú framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja og nú síðast rithöfundur sem sækir þó ekki innblástur í fyrri og núverandi störf.

Þú ert með bakgrunn úr pólitíkinni og fjármálaheiminum. Er ekki nóg af glæpum þar?

„Nei, nefnilega ekki. Sem betur fer hefur slíkt aldrei orðið á vegi mínum í mínu raunverulega lífi og, ég veit það ekki, kannski hefur maður áhuga á þessu vegna þess að þetta er fjarlægt manni.“

Er Össur kannski …?

Katrín segir að í hennar tilfelli hafi persónurnar komið til hennar fyrst og síðan hafi hún þurft að finna þeim sögusvið. „Og þá kannski nýtir maður sér eitthvað aðeins af því sem maður þekkir til,“ segir Katrín og bætir aðspurð við að þannig þýði ekkert að reyna að lesa milli línanna þar sem Sykur sé alls ekki pólitískur lykilróman.

Þannig að maður finnur til dæmis Össur Skarphéðinsson ekkert einhvers staðar í textanum?

„Nei,“ skellihlær Katrín og ítrekar neitunina. „Nei. Ekki nema … Þetta er svolítið skrýtið af því að maður er ekki bara að búa til skúrka í svona bókum. Heldur er maður líka að búa til gott fólk sem verður bæði fyrir barðinu á þessum óþokkum en líka að reyna að leysa málið og þar nota ég kannski meira einhver svona karaktereinkenni frá fólki sem ég þekki.

En það er samt ekkert einhver einn sem ég byggi á heldur meira bara svona samsafn,“ segir Katrín og leggur áherslu á að fyrirmyndir að óþokkunum sæki hún meira í erlenda þætti um sönn sakamál.

Sálarlíf óþokka

„Ég hef náttúrlega lesið rosalega mikið af glæpasögum. Alveg frá því ég man eftir mér hefur þetta verið sá bókaflokkur sem ég hef mest lesið,“ segir Katrín um hneigð sína til skáldaðra glæpa. „Þetta vekur áhuga minn og ég hef líka í gegnum tíðina verið að fara aðeins dýpra ofan í ákveðnar týpur af óþokkum,“ segir Katrín og hlær þegar hún upplýsir að þær sálarrannsóknir stundi hún ekki síst á YouTube og erlendum stöðvum með þáttum um sönn sakamál.

„Þannig að ég horfi rosalega mikið á þannig efni. Maður er náttúrlega að misbjóða sjálfum sér mjög oft þegar maður er að lesa um eða fylgjast með svona löguðu,“ segir Katrín sem gerir mikið af því að blanda eiginmanninum, Bjarna Bjarnasyni rithöfundi, í sönnu sakamálin og þannig byrjaði glæpaboltinn að rúlla.

„Ég var alltaf að segja honum frá einhverju svona og það endaði með því að hann hvatti mig til að prófa enda finnst honum náttúrlega bara mjög eðlilegt að fólk skrifi bara bækur. Honum fannst þetta svo eðlilegt þannig að ég er viss um að ef hann hefði ekki stungið upp á þessu hefði ég örugglega aldrei gert þetta. Ég hafði ekki hugmynd um að ég gæti þetta.“

Engin listrænn ágreiningur

Bjarni hefur skrifað fjölda skáldsagna og önnur skáldsaga hans, Endurkoma Maríu, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 1996 svo eitthvað sé nefnt.

Það má segja að Bjarni skrifi svokallaðar fagurbókmenntir en í samanburði við slíkar eru glæpasögur oftast settar skörinni neðar en Katrín segir þó engan listrænan ágreining milli rithöfundahjónanna.

Engin núningur eða gjá milli bókmenntagreina?

„Nei, ekki á mínu heimili,“ segir Katrín og hlær. „Bjarni er bara algerlega laus við allt þannig en hins vegar les hann ekkert mikið af krimmum sjálfur. Ég hef allavegana ekki tekið eftir því en hann hins vegar áttaði sig einhvern veginn á því á undan mér að kannski gæti ég gert eitthvað með alla þessa djúpköfun á óþokkum sem ég hef farið í.“

Titill glæpafrumraunarinnar virkar ósköp sakleysislegur í fljótu bragði. „Heitið á bókinni kom strax hjá mér af því að það er ákveðin tenging við sykur í bókinni,“ segir Katrín en gefur ekki meira upp.