Katrín Middelton, hertogaynjan af Cambridge, var eldhress þegar hún og eldri börnin fylgdust með Vilhjálmi Bretaprins keppa á pólómóti í gær. Sem kunnugt er áttu þau Vilhjálmur sitt þriðja barn í apríl síðastliðnum. 

Hertogaynjan var afslöppuð þegar hún lék sér við Karlottu og Georg sem virtust skemmta sér vel á meðan pabbi þeirra var að keppa. Katrín klæddist léttum sumarkjól úr Zöru en það er ein af hennar uppáhalds verslunum, og það var ekki að sjá að hún væri nýstigin af sænginni. 

Yngsta barn þeirra, prins Louis, var fjarri góðu gamni en hann er rétt rúmlega eins mánaðar gamall, systkini hans nutu góðs af og fengu óskipta athygli móður sinnar.