Þetta er algjörlega bland í poka og komið víða við. Þetta gerist rosalega hratt,“ segir leikkonan Katla Margrét, sem er ásamt Jóhannesi Hauki og Aron Má Ólafssyni í aðalhlutverkum grínsápuóperunnar Sápunnar.

„Við bara rétt svona lesum handritið yfir,“ segir Katla Margrét um undirbúninginn með leikstjórunum Fannari Sveinssyni og Benedikt Valssyni fyrir maraþontökurnar sem fara fram á fimmtudögum.

„Þetta er bara unnið eins hratt og hægt er. Það er bara þannig og við erum í rauninni bara að læra textann á leiðinni inn á sett,“ segir Katla Margrét um langa tökudagana.

„Það er tekið upp mikið af efni og svo náttúrlega ríður á að klippa þetta allt á einum degi og ég bara næ ekki alveg hvernig þeir halda utan um það,“ segir Katla um endasprettinn sem Benedikt og Fannar taka til þess að koma næsta þætti í loftið á strax á eftir Íslandi í dag á Stöð 2 á föstudagskvöldum.

Allt eftir handriti

Katla Margrét segir þau hafa orðið vör við nokkuð útbreiddan misskilning um að framvinda sögunnar byggi mikið á spuna leikaranna.

„Oh, það væri svo næs að geta pantað hvítvín á netinu,“ segir Katla Margrét í hlutverki Kötlu sem fékk Áslaugu Örnu til sín í klippingu í fyrstu Sápunni.

„Það er ágætt að koma því að núna að þetta er náttúrulega bara allt saman eftir handriti. Líka það sem gerist á milli Sápusenanna,“ segir Katla Margrét og bendir á að Sápan er í raun tvískipt.

Í grunninn snúist hún um hjónabandshremmingar þeirra Jóhannesar Hauks í miðju COVID-fárinu en þau atriði eru tengd saman með innslögum að tjaldabaki þar sem leikstjórarnir og vandræði þeirra við þáttagerðina koma meðal annars við sögu.

„Þetta er bara einhver gamall draumur hjá þessum dúett og við bara hlýðum kallinu. Það er bara gaman að vera með í svona tilraunastarfsemi,“ segir Katla um þættina sem Fannar og Benedikt skrifa ásamt Baldvin Z og Glassriver framleiðir.

Línur fyrir ráðherra

Þjóðþekkt fólk stígur, eins og ekkert sé sjálfsagðara, inn í atburðarás Sápunnar og hárgreiðslukonan Katla fékk til dæmis dómsmálaráðherrann Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur í stólinn til sín í fyrsta þætti og þær ræddu að sjálfsögðu mál málanna í samkomubanni; hvítvín á netinu.

„Hún lærir bara sínar setningar og allir vinna bara samviskusamlega,“ segir Katla Margrét þegar hún er spurð hvernig sé að leika á móti leikmönnum og jafnvel ráðherra í sápuóperu. „Maður er bara í vinnunni og tekur því sem kemur,“ segir Katla sem á von á slatta af gestum úr raunheimum í næsta þætti.

Leikið með hliðarsjálf

Kötlu hárgreiðslukonu finnst hvítvínssopinn helst til góður í þáttunum en Kötlu Margréti er alveg sama þótt í hugum áhorfenda verði yfirfærsla á hvítvínsfíkn milli persónu og leikanda.

„Nei, nei, maður getur þá bara litið á þetta sem einhver hliðaregó,“ segir Katla Margrét og hlær að raunveruleikatengingunni sem getur fylgt því að deila eiginnafni með leikpersónunni.

„Við áttum alveg samtal um þetta og þetta fór ekkert fyrir brjóstið á okkur,“ segir Katla og tekur hugsanlegum dagdrykkjukjaftasögum fagnandi. „Já, já, ég fagna því bara. Allt umtal er betra en ekkert,“ segir sápuóperuleikkonan og hlær.