Við erum að leita að öðruvísi hetjum. Hvunndagshetjum. Maður verður að hafa eitthvað fyrir stafni á meðan maður bíður eftir þessu barni,“ segir sjónvarpskonan Viktoría Hermannsdóttir, sem á von á sér eftir tæpa þrjá mánuði og treystir á hjálp almennings við að finna viðmælendur fyrir nýjan sjónvarpsþátt áður en hún fer í fæðingu.

„Hugmyndin er bara að finna þetta fólk sem er úti í samfélaginu að gera svo magnaða hluti án þess kannski að það sé verið að fjalla sérstaklega um það. Mig langar til þess að finna þetta fólk og varpa aðeins ljósinu á það.“

Þótt Viktoría leiti nú að fólki frekar en leyndardómsfullum forngripum í Fyrir alla muni treystir hún enn á aðstoð almennings og ábendingar um hvunndagshetjurnar sem leynast í samfélaginu og vinna oftar en ekki dáðir sínar í hljóði.

Allir þekkja hetju

„Við þekkjum öll svona fólk en við kannski leiðum ekkert endilega hugann að því. Fólk tekur þessu kannski bara sem sjálfsögðum hlut, en svona fólk er svo ótrúlega mikilvægt í samfélaginu.“

Viktoría bætir við að þetta sé fólkið sem hefur lagt sig fram um að bæta samfélagið, hefur helgað sig ákveðnu málefni, óeigingjörnu starfi eða yfirstigið miklar hindranir. Viðkomandi þurfi alls ekki að hafa fengið verðlaun eða viðurkenningar fyrir störf sín, heldur einfaldlega að hafa vakið aðdáun einhvers fyrir dugnað og eljusemi í leik eða starfi.

„Við erum svolítið að treysta á að almenningur sendi okkur ábendingar um þetta fólk sem við höfum ekkert heyrt um. Við förum svo í gegnum ábendingarnar, veljum úr og ætlum að reyna að fjalla um sem flesta og hafa þetta sem fjölbreyttast,“ segir Viktoría og hefur fulla ástæðu til bjartsýni, þar sem ábendingar eru þegar byrjaðar að berast.

Kapphlaup við settan dag

„Þannig að þetta fólk er greinilega víða og ég vonast til þess að við fáum sem flesta svo við getum bara gert sem mest áður en það kemur að því tökuteymið þurfi bara að fara að taka á móti barni í miðju viðtali,“ segir Viktoría hlæjandi og ætlar greinilega að gernýta það sem eftir er af meðgöngunni.

„Það eru tæplega þrír mánuðir í settan dag en ég geng alltaf fram yfir. Það gengur allt vel. Maður er bara aðeins þyngri á sér eins og gengur og gerist þegar maður gengur með barn, þannig að ég er ekkert að hlaupa neitt en næ vonandi bara að gera sem mest áður en barnið kemur í heiminn. Síðan höldum við bara áfram með þetta þegar ég sný til baka.“

Af hverju?

Viktoríu hefur lánast að sameina áhugamál sín við sjónvarpsþáttagerðina. „Sögur fólks eru akkúrat það sem ég hef áhuga á,“ segir Viktoría og áréttar að þá eigi hún við alls konar fólk. „Mér finnst þetta fólk líka svo magnað sem vinnur svona mikið óeigingjarnt starf eða gerir eitthvað sem er algjörlega einhvern veginn fyrir aðra.

Hvort sem það er að breyta einhverju eða bæta eitthvað þá langar mann svo að vita meira og þá ekki síst af hverju? Af hverju fer fólk út í þetta og hvað drífur það áfram?

Ég held svo líka að við þurfum bara svolítið á þessu að halda núna þegar við erum búin að vera í einhverjum alheimsfaraldri og núna einhverri skjálftahrinu. Þá er gott að heyra af svona fólki sem er að gera góða hluti. Fallega hluti.

Ef maður fylgist mikið með samfélagsmiðlum þá finnst manni oft að margir pæli bara í sjálfum sér og engum öðrum. Þannig að það er fallegt að heyra það að það séu einstaklingar þarna úti sem eru ekki að því,“ segir Viktoría og hvetur fólk til að senda alls konar ábendingar á netfangið hvunndagshetja@ruv.is.