Kassetta með 33 mínútna viðtali við fyrrum bítilinn John Lennon seldist á uppboði í Danmörku á 370 þúsund danskar krónur eða tæplega 7,5 milljónir íslenskra króna.

Fjórir danskir táningar tóku viðtalið við Lennon og Yoko Ono í Danmörku árið 1970, um það leytið sem Bítlarnir voru að hætta.

Hægt er að lesa meira um kasettuna á vef Bruun Rasmussen uppboðsvefsins. Með kasettunni fylgdu myndir frá viðtalinu og eintak af skólatímaritinu þar sem viðtalið birtist.

Í fyrstu var talið að kassettan myndi seljast um 200-300 þúsund danskar krónur en það var mikill áhugi á gripnum og seldist kassettan úr landi.