Þórarinn Ævars­son, lands­þekktur at­hafna­maður, segist hafa fengið ó­trú­leg við­brögð við að opna sig ný­lega um lausn sem hann fékk frá djúpu þung­lyndi. Þórarinn, sem er nýjasti gesturinn í pod­casti Sölva Tryggva­sonar, segist hafa fundið sið­ferði­lega skyldu til að opna sig, þó að hann sé í grunninn mjög lítið fyrir að opin­bera sjálfan sig.

„Þetta er búið að vera al­gjör­lega fríkað síðan þetta við­tal kom út og gríðar­lega mikil við­brögð. Samt er ég ekki á Face­book eða neinum sam­fé­lags­miðli og heldur ekki í síma­skránni, svo að það þarf að hafa tals­vert fyrir því að ná á mig. Ég er svo­lítið ,,anal” á því að vera ekki á neinum sam­fé­lags­miðli, af því að ef það er ekkert verð á vörunni, þá ert þú lík­lega sjálfur varan og lík­lega verið að selja að­gang að þér. Þó að ég hafi lagt nær öll mín leyndar­mál á borðið núna er ég í grunninn mjög prívat maður. “

Fékk gríðarleg viðbrögð eftir að hann opnaði sig

„Ég hef í gegnum tíðina verið tals­vert í fjöl­miðlum, en hef aldrei áður talað um mín per­sónu­legu mál opin­ber­lega. En ég vissi ein­hvern vegin að ég gæti lík­lega hjálpað ein­hverjum með því að opna mig, af því að ég vissi að ég væri ekki einn á þeim stað sem ég var á. Það er mjög mikið af fólki að glíma við stans­lausa verki og enn fleiri að glíma við al­var­legt þung­lyndi eins og ég var fastur í.

Það eru 62 þúsund manns að taka þung­lyndis­lyf á Ís­landi, sem þýðir væntan­lega að það eru alla­vega 80-90 þúsund sem þurfa á að­stoð að halda, af því að margir þola ekki auka­verkanirnar eða fara ekki þá leið að taka lyf. Það er núna að koma fram mikið af rann­sóknum sem benda til þess að það sé mjög ó­ljóst hve mikil á­hrif þessi SSRI lyf hafa og að auka­verkanirnar eru miklar.

Án þess að ætla að tala illa um neinn er ljóst að saga geð­læknis­fræðinnar er vörðuð mis­tökum og það er ekki langt síðan það þótti sniðugt að taka stál­blað og stinga því með­fram auganu upp í heila til þess að laga geð­sjúk­dóma. Mér rann blóðið til skyldunnar að tjá mig um hvað hug­víkkandi efni gerðu fyrir mig, þó að ég sé alls ekki að halda því fram að þetta sé töfra­lausn fyrir alla.“

Þórarinn segist hafa fengið stað­festingu á því að inn­legg hans hafi verið mikil­vægt miðað við allan þann fjölda sem hafi sett sig í sam­band við hann.

„Það hefur fjöldi fólks haft sam­band við mig sem tengir við söguna mína, ekki síst fólk sem hefur verið þjakað af verkjum í mörg ár. Það endar auð­vitað bara með þung­lyndi. Það getur enginn skilið það að vera stans­laust að glíma við verki í ára­raðir nema sá sem hefur upp­lifað það.

Ef þú værir að labba frá Reykja­víkur til Kefla­víkur og værir með smá stein­völu í skónum væri það allt í lagi fyrst. En þegar þú værir kominn til Straums­víkur væri stein­valan búin að taka yfir allt saman. Líf mitt var orðið þannig að ég var alls staðar með lyf.

Ég fór um daginn í úlpu sem ég fer sjaldnast í og þá voru verkja­töflur í öllum vösum, parkódín og önnur verkja­lyf. Það er engin leið að lifa svona og endar bara á því að það verður freistandi að fara út í skúr og taka fram kaðal.“

Losnað um skömm

Þórarinn segir að undan­farnir 7 mánuðir hafi meira og minna farið í sjálfs­vinnu og eitt af því sem hafi komið út úr því hafi verið að hann hafi áttað sig á allri skömminni sem þjakaði hann, sem hefur nú losnað um.

„Ég held að ég tali fyrir hönd margra karl­manna þegar ég segi að við erum upp til hópa með mikla skömm innra með okkur, bara fyrir það eitt að vera menn. Margt af þessu tengist kyn­vitund okkar, kyn­hvöt og annað þess háttar. Það er búið að upp­hefja mjög margt sem snýr að konum og kyn­lífi, sem er bara hið besta mál. En á sama tíma erum við karl­mennirnir með að­eins aðra líf­fræði og við örvumst meira af því sem við sjáum.

Á sama tíma og konur geta verið stoltar yfir því að eiga safn af titrurum eiga strákar og karl­menn sem horfa á you­porn að sjá sig sem slæma stráka og skammast sín og það er bara talað nei­kvætt um þetta. Mér finnst strákar þurfa að skammast sín fyrir svo margt í dag, sem er al­gjör­lega ömur­leg þróun. Við karl­menn stundum upp til hópa mjög mikla sjálfs­rit­skoðun, en verðum að þora að tjá okkur um þessa hluti.”

Eftir tíma­bilið sem ég hef farið í gegnum núna er ég loksins hættur að rífa mig stans­laust niður og losa um alla þessa skömm. Þegar maður hættir að tæta sig niður verður auð­veldara að sætta sig við það að maður sé bara mann­legur og með breysk­leika.“

Í þættinum lýsir Þórarinn ferða­lagi inn í gríðar­lega verkja­lyfja­fíkn og djúpt þung­lyndi, sem endaði með því að hann var farinn að í­huga að enda líf sitt dag­lega. Að lokum sprengdi hann sig úr þung­lyndinu með notkun hug­víkkandi efna, sem hann full­yrðir að hafi bjargað lífi sínu. En eftir það tók við löng veg­ferð í að losa sig við fíkn í verkja- og kvíða­lyfin Oxycontin og Sobril.

„Ég fékk al­gjöra full­vissu um að ég myndi ná að losa mig við þessi lyf, þó að ég hafi verið orðinn al­gjör­lega háður þeim. En það er ekki þar með sagt að það hafi verið auð­velt og það tók mig tals­verðan tíma. Það fór í raun síðasta sumar og haustið í að losa mig undan frá­hvörfunum.

Fyrst að minnka skammtana af Oxycontin hægt og ró­lega, en svo var í raun enn erfiðara að losa mig alveg við Sobrilið, sem er kvíða­lyf sem er mjög mikið skrifað upp á. Ég vissi ekki að það væri svona hættu­legt og á­vana­bindandi. Það er svo of­boðs­lega and­legur slagur að losa sig við það lyf og ég þurfti að gera það mjög ró­lega og ætlaði aldrei að ná að slíta mig alveg frá síðasta þræðinum, en á endanum tókst það.“

Varð að opna sig

Þórarinn segist á sér­stökum stað eftir að hafa tjáð sig svo opin­skátt. Eftir að hafa verið fram­kvæmda­stjóri yfir stórum fyrir­tækjum í ára­raðir sé hann núna at­vinnu­laus og búinn að opna sig um hluti sem margir dæma harka­lega. En hann segir að stundum séu vegir lífsins ó­rann­sakan­legir og að hann hafi ein­fald­lega ekki átt neitt val.

„Ég er lík­lega ekki að gera mér neinn greiða upp á fram­tíðina með því að opna mig svona um þessa hluti og það munu örugg­lega margir dæma mig.
En stundum finnur maður að maður verður að gera eitt­hvað án þess að festast í því að hugsa um af­leiðingarnar. Það er sið­ferði­lega rangt að halda þessum mögu­leika frá fólki og halda því leyndu að það sé mögu­lega til lausn sem getur bjargað lífum.

Það er oft á tíðum mikill hroki í þeim sem tjá sig nei­kvætt um hug­víkkandi efni og þá er þetta jafn­vel kallað of­skynjunar­dóp og annað í þeim dúr. Það er ekki hægt að ,,over­dósa” á þessum efnum, en á sama tíma er skrifað upp á lyf sem vitað er að valda al­var­legri fíkn, eins og Oxycontin og Sobril, sem enduðu nánast með mig á enda­stöð. Það var frá­bært að sjá bæði lög­reglu­menn og heil­brigðis­starfs­fólk á ráð­stefnunni um hug­víkkandi efni sem fór fram núna um daginn. Við verðum að eiga al­vöru sam­tal um þetta sem sam­fé­lag.“

Þórarinn segir að líf sitt hafi tekið al­gjöra U-beygju undan­farið ár og fram­tíðin sé ó­ljós. En laus við skömmina og þung­lyndið segist hann bjart­sýnn á fram­haldið.

„Ég átti stærstu gerð af Landcru­iser og sport­bíl með vængja­hurðum, ein­býlis­hús á Siglu­firði og stóran spítt­bát. Ég á ekkert af þessu lengur og er búinn að þurfa að losa mig við þetta allt saman. Ég er búinn að skrúfa mig hressi­lega niður, enda felst lífs­fyllingin ekki í efnis­legum eigum.

Ég væri jafn­vel til í að byrja að baka bara aftur, enda er ég menntaður bakara­meistari. Ég þarf ekki eins mikið og ég þurfti, sem er bara já­kvætt. Ég er búinn að vera að vinna í sjálfum mér alveg síðan síðasta vor og líf mitt hefur breyst mikið. En ég veit að þetta var mikil­vægasta verk­efnið í lífi mínu. Að komast út úr þung­lyndinu og lyfjafíkninni, þannig að ég gæti verið til staðar fyrir konuna mína og börnin mín, sem ég elska svo of­boðs­lega mikið.“