At­hafna­maðurinn Fannar Sigurðs­son, sem meðal annars er starfs­maður í Sam­bíóunum Álfa­bakka, bjó til við­burð sem fékk heitið; Karl­menn á Frozen II. Tæp­lega fimm hundruð manns hafa ýmist boðað komu sína eða lýst yfir á­huga og segir Fannar styttast í að upp­selt verði á sýninguna.

Upp­haf­lega hafði Fannar, á­samt bróður, sínum að­eins ætlað sér að skipu­leggja hóp­ferð með vina­hóp sínum á bíó­myndina. Sú á­ætlun fór þó brátt út um þúfur þar sem við­burðurinn var ekki lokaður og fór því fljót­lega að kvisast út að enginn karl­maður ætti að láta þetta fram hjá sér fara.

Ætlaði að bjóða vina­hópnum

„Þetta átti bara að vera fyrir okkur vinina en við erum bara hressir með að fá hvern sem er þarna,“ segir Fannar í sam­tali við Frétta­blaðið. Hann segir þá bræður lengi hafa hrifist af systrunum Elsu og Önnu. „Okkur hefur fundist systurnar og sagan sjálf minna á okkur bræðurna sem hefur vakið svona mesta á­huga okkar á myndunum.“

Fannar segir lítið hafa verið um stóra stráka­hópa á sýningum Frozen hingað til. „Það mætir samt fullt af karl­mönnum á hana.“ Þeir virðist þó ekki ekki fylkja liði á Frozen í sama mæli og konur.

Búist er við því að salur A í Álfabakka muni fyllast á morgun.
Mynd/Sambíóin

Allir karlar vel­komnir

Í lýsingu við­burðarins stendur að allir séu vel­komnir svo lengi sem þeir séu karl­menn. Fannar út­skýrir að það sé í raun grín í vina­hópnum og að auð­vitað séu allir vel­komnir. Hann játar þó að það væri ekki verra ef að salurinn á morgun yrði fullur af karl­mönnum. „Það væri náttúru­lega hel­víti gaman að fá að upp­lifa svo­leiðis.“

Hann hvetur alla til að mæta þar sem mark­miðið sé auð­vitað að fylla salinn. „Það verður alveg geggjuð stemmning og þessi sýning verður auð­vitað allt öðru­vísi en venju­legar svona sýningar.“ Fannar veltir því einnig fyrir sér hvort þetta gæti mögu­lega verið stærsta skipu­lagða hóp­ferð karl­manna á teikni­mynd. Enginn ætti því að hika við að draga vini sína í bíó á morgun en við­burðinn má finna hér.