„Það er svolítið fyndið að þegar ég lít í spegil sé ég ekki þessa manneskju sem er á öllu fínu myndunum mínum. Ég lít meira á þær sem list sem ég skapa og finnst hún alls ekki vera ég. Ég hef alltaf haft yfirburða hæfileika í að sitja fyrir og koma fram, en þá set ég mig í aðra persónu og Ísdrottningin tekur yfir. Það sem ég sé í speglinum er bara stelpa með mikinn metnað og sem er búin að upplifa meira en flestir á heilli ævi.“

Þetta segir Ásdís Rán Gunnarsdóttir, fyrirsæta, einkaþjálfari og þyrluflugmaður.

Hún kveðst alltaf hafa þurft að passa upp á línurnar.

„Það má segja að ég sé á eilífðar megrunarkúr. Ég á ekki auðvelt með að halda mér í formi og þarf virkilega að hafa fyrir því, er með mjög hæga brennslu og þarf stanslaust að passa mig. Ég er sem betur fer enginn nammigrís og ekkert fyrir sykur eða snakk. Ég hef aldrei drukkið gos og fíla ekki skyndibita, en ég er mikill sælkeri þegar kemur að góðum, fínum mat og góðum vínum. Ég gæti farið út að borða á bestu matsölustaðina og borðað þar dýrustu réttina og drukkið bestu vínin á hverjum degi, en það er jú ansi dýrt sport,“ segir Ásdís gáskafull.

Það sem ég sé í speglinum er bara stelpa með mikinn metnað og sem er búin að upplifa meira en flestir á heilli ævi.

Ásdís Rán er dugleg að rækta líkama og sál og segir einkar gott að rækta heilsuna í Búlgaríu. Hún hefur mest gaman af lyftingum, HIIT-æfingum, útivist, skíðum, hjólreiðum og fjallgöngum. MYND/AÐSEND

Líkamsrækt í fyrsta sætinu

Heilsurækt er hluti af daglegri tilveru Ásdísar Ránar og hefur lengi verið.

„Þegar ég var í 10. bekk ákvað ég að hella mér af fullum krafti í fitnessbransann og setti líkamsrækt í fyrsta sætið. Það má segja að ég hafi haldið því ansi vel, þar til nú mörgum árum seinna. Ég keppti í fitness þegar ég var yngri, vann meðal annars bikiníkeppni og keppnina Líkami fyrir lífið, ásamt því að vinna á líkamsræktarstöð. Ég hef því alltaf borðað hollt og stundað líkamsrækt, enda er það algjör grunnur ef maður vill eldast vel og halda heilsunni sem lengst,“ segir Ásdís.

Hún lauk námi í einkaþjálfun vorið 2019.

„Í gamla daga var ég alltaf viðloðandi það fag, kenndi bodypump, kickbox og einkaþjálfun. Ég var líka með mikið af módelnámskeiðum, sjálfsstyrktarnámskeiðum og sá um þjálfun keppenda í fegurðarsamkeppnum, en var ekki með réttindin. Ég fór því í einkaþjálfaraskólann til að ná mér í lögleg réttindi,“ segir Ásdís.

„Ég hef líka tekið að mér heilsu- og bjútíráðleggingar, stíliseringu og fleira. Ég hjálpa konum að líta betur út og finna réttar fegrunarmeðferðir erlendis en ég er umboðsmaður fyrir slíkar meðferðir í Búlgaríu og Tyrklandi, sem eru mun ódýrari og standa töluvert framar en á Íslandi. Ég kem væntanlega til með að bjóða upp á þjónustu mína á Íslandi næstu mánuði, ef einhver hefur áhuga,“ greinir Ásdís frá.

Hennar veigamesta heilræði sem einkaþjálfari er:

„Að halda líkamsræktinni áfram og alltaf. Ekki gefast upp þótt á móti blási og þú sjáir ekki akkúrat muninn sem þú vilt. Þetta er lífstíðarverkefni og spurning um lífsstíl ævina út. Að sama skapi eru helstu mistökin sem fólk gerir á leið að betri lífsstíl að byrja á of ströngu æfingaprógrammi, gefast upp of fljótt og svelta sig.“

Ég hef því alltaf borðað hollt og stundað líkamsrækt, enda er það algjör grunnur ef maður vill eldast vel og halda heilsunni sem lengst.

Ásdís Rán hefur verið búsett í Búlgaríu undanfarin ár en sér fram á að vera meira heima á Íslandi næstu tvö árin. MYND/AÐSEND

Enn mjög þekkt í Búlgaríu

Ásdís hefur undanfarin ár búið í Sófíu, höfuðborg Búlgaríu, en næstu tvö árin ætlar hún að vera með annan fótinn heima á Íslandi.

„Dóttir mín vill klára grunnskólann á Íslandi. Í Búlgaríu hafa allir skólar verið lokaðir vegna Covid og því hefur hún verið á unglingastiginu í fjarnámi á netinu. Krakkar á Íslandi hafa verið heppnir að skólahald hafi haldist opið á þessum erfiðu tímum, en þessi einangrun utan skólastofunnar hefur ekki verið auðveld fyrir dóttur mína. Við erum með heimili í báðum löndum, sem er frábært og því getum við verið á báðum stöðum eftir hentisemi.“

Vegna heimsfaraldursins hefur Ásdís lítið geta flogið þyrlum, sem þó er hennar líf og yndi.

„Covid hefur gert erfiðara um vik að fá leigðar þyrlur nema maður ferðist til annarra landa og engar hobbí-þyrlur sem hægt er að fljúga á Íslandi né í Búlgaríu, þar sem eingöngu atvinnumannaþyrlur eru notaðar í ferðamannabransanum,“ upplýsir Ásdís sem hefur í nógu að snúast í Búlgaríu.

„Undanfarna daga fléttaði ég saman nokkrum verkefnum og hef verið með þýskt tökulið sem fylgdi mér eftir og tók upp hluta af daglegu lífi mínu hér í Búlgaríu. Á sama tíma var ég í myndatökum fyrir íslenska forsíðu og búlgarskt tímarit. Ég hef því verið ansi upptekin og er á leið til Íslands á næstu dögum. Ég er enn mjög þekkt í Búlgaríu, sem er alveg ótrúlegt í svona stóru landi, en ég er ekki aðalstjarnan eins og ég var í gamla daga,“ segir Ásdís glettin.

Ásdís Rán segir stöðuga pressu á sér að líta sem best út, en það sé í góðu lagi því það haldi henni við efnið. MYND/AÐSEND

Ég er enn mjög þekkt í Búlgaríu, sem er alveg ótrúlegt í svona stóru landi, en ég er ekki aðalstjarnan eins og ég var í gamla daga.

Besta ráð Ásdísar Ránar þegar kemur að fegurð og kynþokka er að vinna í því að vera sáttur við sjálfan sig, enda felst kynþokki í góðu sjálfstrausti. MYND/AÐSEND

Kynþokki felst í sjálfstraustinu

Ásdís Rán hefur til langs tíma verið eitt þekktasta kyntákn Íslendinga. Spurð hvort henni finnist hún alltaf þurfa að vera tipptopp, vel tilhöfð og í góðu formi, svarar Ásdís:

„Já, mér finnst það. Það er yfirleitt stanslaus pressa á mig að líta vel út, en það er alls ekkert slæmt. Það heldur mér við efnið og ég vinn alltaf í því að líta þokkalega vel út, sem er bara kúl og ég vorkenni mér ekkert fyrir það. Það verður eflaust eitthvert bjútí- og heilsuprógramm í gangi hjá mér svo lengi sem ég lifi,“ segir Ásdís og hlær, full sjálfstrausts.

„Í mínum huga felst kynþokki í sjálfstrausti. Hversu öruggur er maður með sig? Því öruggari, því meiri kynþokki. Fegurð er svo annað mál, breytileg og kemur í ýmsum myndum. Mitt besta ráð þegar kemur að fegurð og kynþokka er að vinna í því að vera sáttur við sjálfan sig, hugsa vel um sig og eyða svolitlum tíma í að leyfa sér að líta vel út, hugsa vel um húðina og hárið og finna hamingjuna. Þá geislar maður af fegurð.“

Senn kemur vorið og svo sumarið og segir Ásdís enn tíma til að komast í bikiníform.

„Já, já, það er hægt að gera kraftaverk á næstu tveimur til þremur mánuðum ef viljinn er fyrir hendi. Ég ætla allavega sjálf að bæta bikinílúkkið,“ segir hún og skellir upp úr.

Þegar kemur að heilsurækt finnst Ásdísi skemmtilegast í ræktinni.

„Mér þykir gaman að lyftingum og HIIT-æfingum, en fyrir utan það er ég rosalega hrifin af útivist, skíðum, hjólreiðum og fjallgöngum. Það gefur mér mikið og ég fæ smá náttúruheilun í leiðinni,“ segir Ásdís sem sinnir andlegu heilsunni með útivist, einveru og hugleiðslu.

„Mér finnst auðveldara að sinna líkama og sál í Búlgaríu. Hér er allt til alls og miklu fleiri möguleikar í boði, flottari og tæknilegri líkamsræktarstöðvar, ódýrari heilsumatur fæst hvarvetna og veðrið er betra til að hreyfa sig úti.“

Í mínum huga felst kynþokki í sjálfstrausti. Hversu öruggur er maður með sig? Því öruggari, því meiri kynþokki.

Þegar kemur að mataræði segist Ásdís velta fyrir sér öllu sem hún setur ofan í sig.

„Ég reyni að borða eingöngu hreint fæði, grænmeti, fisk og kjöt, en engar unnar vörur og helst ekki sósur. Ég borða ekki brauð né pasta. Ég nota olíur, salt og pipar en passa að nota ekki of mikið krydd. Það kemur fyrir að ég hafi kolvetnaríkan dag, fer þá „all in“ og borða eins mikið af kolvetnum og ég get á einum degi, eða þangað til ég fæ algjört ógeð og langar helst ekki að borða næstu vikuna.“

Í ísskápnum á Ásdís alltaf egg og segist borða tvö til fjögur egg á dag.

„Ég er ekkert of dugleg að elda þar sem við mæðgurnar erum yfirleitt einar og í Búlgaríu er algengara að fólk borði á matsölustöðum en eldi sjálft. Því hefur verið lítill metnaður í matargerðinni en ég hef þó eldað mest allt lífið og er fínn kokkur þegar á þarf að halda. En við skvísurnar erum lítið heima og aðallega í hollum kosti, salötum og einhverju einföldu.“

Ásdísi Rán líður vel í eigin skinni en segir ekki alltaf auðvelt að vera hún sjálf og Ísdrottningin. MYND/AÐSEND

Sá rétti kemur á réttum tíma

Sumir gætu velt fyrir sér hvort það sé þreytandi að vekja hvarvetna eftirtekt fyrir útlitið, en Ásdís segist njóta athyglinnar vel, enda fædd í Ljónsmerkinu, eins og hún segir.

„Ég hef verið svo heppin að vera í sviðsljósinu frá unga aldri og þekki ekki annað. Mér finnst það því alls ekki þreytandi heldur nýt ég þess og lifi á því.“

Spurð hvernig henni líði í eigin skinni svarar Ásdís:

„Mér líður bara þokkalega vel og held að ég sé einstaklega heppin að fá að vera ég sjálf og Ísdrottningin, en það er ekki alltaf auðvelt! Mikilli athygli fylgir alls kyns vesen og vandamál, en ég er vön því og sætti mig við það því þetta er leiðin sem ég valdi mér. Karlmenn eru hræddir við mig, konum stendur ógn af mér og það er erfitt fyrir mig að slaka á og vera ég sjálf í kringum fólk, aðallega vegna þess hve annað fólk er óöruggt í kringum mig.“

Það sem veitir henni vellíðan er rútína, heilsurækt, sköpun, ferðalög, dýrin, fjölskyldan og ást.

„Mér líður best þegar ég fæ að skapa eitthvað, þegar ég flýg þyrlu um loftin blá og er í verkefnum sem fylgir atgangur, fjör og hasar, helst með nokkrar myndavélar í kringum mig og nóg að gera. Mér líður ekki vel þegar ég er föst á einum stað of lengi. Frá unga aldri hefur líf mitt einkennst af stanslausum ferðalögum og ævintýrum og því á ég erfitt með að finna sálarfrið í of einhæfu umhverfi,“ segir Ásdís.

Karlmenn eru hræddir við mig, konum stendur ógn af mér og það er erfitt fyrir mig að slaka á og vera ég sjálf í kringum fólk, aðallega vegna þess hve annað fólk er óöruggt í kringum mig.

Hún kveðst hamingjusömust með börnunum sínum.

„Þau eru öll svo stórkostleg og ég dáist að þeim á hverjum degi. Mér finnst ótrúlegt að mér hafi tekist að búa til og ala upp þessar dásamlegu manneskjur. Ég vonast auðvitað til að finna mann sem getur gert mig enn hamingjusamari,“ segir Ásdís í einlægni, en hvað er til ráða þegar karlmenn eru hræddir við hana og hvernig ættu þeir að nálgast hana?

„Þótt þeir séu vandfundnir eru alltaf einhverjir sem þora. Ætli það sé ekki best að reyna að ná athygli minni á samfélagsmiðlum og sjá hvort ég svari. Það er ekkert að óttast, en ég er eflaust ekki sú auðveldasta,“ segir Ásdís kímin og hlær.

En hvernig mann vill hún?

„Einhvern góðan og skemmtilegan sem hefur gaman af því að dekra við svona drottningu eins og mig. Ég var alltaf með uppskrift að draumaprinsinum í gamla daga en það virkaði aldrei. Ég hef því lært að vera opin fyrir alls konar. Annars er ég ekkert að stressa mig yfir því að vera á lausu og finnst það bara fínt. Ég veit að hann kemur til mín á réttum tíma.“

Ég var alltaf með uppskrift að draumaprinsinum í gamla daga en það virkaði aldrei. Ég veit að hann kemur til mín á réttum tíma.

Fylgist með Ásdísi Rán á Instagram @asdisran og á Facebook