Titill verksins er THEM. Leik­stjóri verksins er Unnur Elísa­bet Gunnars­dóttir og með­limir hópsins eru frá Ís­landi og Finn­landi. Við vinnslu verksins var rætt var við full­orðna karla á Norður­löndunum, frá þrí­tugs­aldri og upp í sjö­tugt. „Þetta eru karl­menn úr ýmsum stéttum. Margir þeirra eru greini­lega ekki vanir að opna sig mikið og það sé svona raun­veru­lega hlustað. Þetta var mjög á­huga­vert að upp­lifa,“ segir Tinna Þor­valds Önnu­dóttir. Hún leikur í verkinu auk þess að skrifa hand­ritið í fé­lagi við fjóra með­limi hópsins. Hún segir þróun verksins hafa hafist um 2016 þegar hópurinn byrjaði að safna saman við­tölum við karla um þeirra upp­lifun af karl­mennsku.

Eins og að vera í sál­fræði­við­tali

Hún segir að ekki hafi reynst erfitt að fá karl­menn til þát­töku í verk­efninu, enda hafi við­tölin verið nafn­laus og þát­tak­endur hafi skrifað undir samning þess efnis. „Ég held að mörgum hafi fundist þetta rosa­lega gott. Ein­hverjir höfðu orð á því að þetta væri bara eins og þeir hefðu verið í sál­fræði­við­tali,“ segir Tinna.
Að þessu sinni er verkið sett upp í Dans­verk­stæðinu á Hjarðar­haga, en sýningin flokkast sem for­sýning. „Þetta er verk í vinnslu,“ segir hún.
„Núna erum við að búa til ferða­sýningu sem hægt er að setja upp í leik­húsum sem eru með flókinn ljósa­búnað og svo fram­vegis, en gengur líka í ein­faldari rýmum. Til dæmis á leik­listar­há­tíðum sem bjóða upp á það,“ segir Tinna.
Næsta sumar verður verkið svo form­lega frum­sýnt í Tjarnar­bíói sem hluti af sviðs­lista­há­tíðinni Reykja­vík Fringe Festi­val.

Tinna Þorvalds Önnudóttir leikur í verkinu auk þess að skrifa handritið í félagi við fjóra hópmeðlimi. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Missti barnið sitt og grét einn í bíl­skúrnum

„Það á­huga­verða við þetta er að maður kemst að því hvar mann­eskjur sem skil­greina sig sem karla, og fólk les sem karla, hafa for­réttindi og for­gang,“ segir Tinna. „Og á hinn bóginn hvar konur hafa for­réttindi, eins og varðandi að tjá til­finningar.“ Hún segist einnig hafa heyrt sögur af full­orðnum körlum sem hafa lent í miklum missi og á­föllum og hafa ekki upp­lifað leyfi til að syrgja eða leyfi til að gráta. „Og á meðan fæ ég leyfi til að gráta yfir aug­lýsingu,“ segir Tinna. „Einn við­mælandi missti barnið sitt og þurfti að fara einn inni í bíl­skúr að gráta með tón­listina stillta í botn. Margt svona er mjög sláandi,“ segir hún.

Sam­fé­lags­breytingar á þróunar­tíma verksins

„Kannski á maður ekki bara að vera virðingu fyrir karl­lægum eigin­leikum. Kannski má bara vera í flæði en ekki alltaf í þessum beinu línum,“ segir Tinna.
Það er ó­hætt að ætla að heims­far­aldur kórónu­veiru og frelsis­bar­átta á borð við #me-too hafi haft á­hrif á þróunar­ferli leik­verks um kynjaða sjálfs­mynd. Tinna svarar því játandi og segir að sýningin hafi breyst mikið í ferlinu. „Það hefur margt gerst á þessum tíma. Þá hefur Þor­steinn Einars­son verið að fjalla um málin á sínum miðli og í hlað­varpinu Karl­menns­kunni.“ Tinna segir karla hafa í auknum mæli opnað á hvað sé já­kvæð og nei­kvæð karl­mennska.

„Við höfum líka fundið að þetta ferli hefur breytt okkur, einn af stærstu töfrunum við að búa eitt­hvað til er að finna hvernig það breytir manni sjálfum.“
Fram­leiðandi verksins, Nanna Gunnars­dóttir, telur að núna sé hár­réttur tími til að frum­sýna loka­út­gáfuna af sýningunni og segir hana eiga mikið erindi. „Sýningin styðst við raun­veru­lega reynslu fólks sem flestir ættu að geta tengt við,“ segir hún.

Sunnu­dags­kvöldið 5. desember fara fram tvær sýningar á verkinu á Dans­verk­stæðinu við Hjarðar­haga, kl 18 og 21, og er sýningin um 70 mínútur að lengd.