Titill verksins er THEM. Leikstjóri verksins er Unnur Elísabet Gunnarsdóttir og meðlimir hópsins eru frá Íslandi og Finnlandi. Við vinnslu verksins var rætt var við fullorðna karla á Norðurlöndunum, frá þrítugsaldri og upp í sjötugt. „Þetta eru karlmenn úr ýmsum stéttum. Margir þeirra eru greinilega ekki vanir að opna sig mikið og það sé svona raunverulega hlustað. Þetta var mjög áhugavert að upplifa,“ segir Tinna Þorvalds Önnudóttir. Hún leikur í verkinu auk þess að skrifa handritið í félagi við fjóra meðlimi hópsins. Hún segir þróun verksins hafa hafist um 2016 þegar hópurinn byrjaði að safna saman viðtölum við karla um þeirra upplifun af karlmennsku.
Eins og að vera í sálfræðiviðtali
Hún segir að ekki hafi reynst erfitt að fá karlmenn til þáttöku í verkefninu, enda hafi viðtölin verið nafnlaus og þáttakendur hafi skrifað undir samning þess efnis. „Ég held að mörgum hafi fundist þetta rosalega gott. Einhverjir höfðu orð á því að þetta væri bara eins og þeir hefðu verið í sálfræðiviðtali,“ segir Tinna.
Að þessu sinni er verkið sett upp í Dansverkstæðinu á Hjarðarhaga, en sýningin flokkast sem forsýning. „Þetta er verk í vinnslu,“ segir hún.
„Núna erum við að búa til ferðasýningu sem hægt er að setja upp í leikhúsum sem eru með flókinn ljósabúnað og svo framvegis, en gengur líka í einfaldari rýmum. Til dæmis á leiklistarhátíðum sem bjóða upp á það,“ segir Tinna.
Næsta sumar verður verkið svo formlega frumsýnt í Tjarnarbíói sem hluti af sviðslistahátíðinni Reykjavík Fringe Festival.

Missti barnið sitt og grét einn í bílskúrnum
„Það áhugaverða við þetta er að maður kemst að því hvar manneskjur sem skilgreina sig sem karla, og fólk les sem karla, hafa forréttindi og forgang,“ segir Tinna. „Og á hinn bóginn hvar konur hafa forréttindi, eins og varðandi að tjá tilfinningar.“ Hún segist einnig hafa heyrt sögur af fullorðnum körlum sem hafa lent í miklum missi og áföllum og hafa ekki upplifað leyfi til að syrgja eða leyfi til að gráta. „Og á meðan fæ ég leyfi til að gráta yfir auglýsingu,“ segir Tinna. „Einn viðmælandi missti barnið sitt og þurfti að fara einn inni í bílskúr að gráta með tónlistina stillta í botn. Margt svona er mjög sláandi,“ segir hún.
Samfélagsbreytingar á þróunartíma verksins
„Kannski á maður ekki bara að vera virðingu fyrir karllægum eiginleikum. Kannski má bara vera í flæði en ekki alltaf í þessum beinu línum,“ segir Tinna.
Það er óhætt að ætla að heimsfaraldur kórónuveiru og frelsisbarátta á borð við #me-too hafi haft áhrif á þróunarferli leikverks um kynjaða sjálfsmynd. Tinna svarar því játandi og segir að sýningin hafi breyst mikið í ferlinu. „Það hefur margt gerst á þessum tíma. Þá hefur Þorsteinn Einarsson verið að fjalla um málin á sínum miðli og í hlaðvarpinu Karlmennskunni.“ Tinna segir karla hafa í auknum mæli opnað á hvað sé jákvæð og neikvæð karlmennska.
„Við höfum líka fundið að þetta ferli hefur breytt okkur, einn af stærstu töfrunum við að búa eitthvað til er að finna hvernig það breytir manni sjálfum.“
Framleiðandi verksins, Nanna Gunnarsdóttir, telur að núna sé hárréttur tími til að frumsýna lokaútgáfuna af sýningunni og segir hana eiga mikið erindi. „Sýningin styðst við raunverulega reynslu fólks sem flestir ættu að geta tengt við,“ segir hún.
Sunnudagskvöldið 5. desember fara fram tvær sýningar á verkinu á Dansverkstæðinu við Hjarðarhaga, kl 18 og 21, og er sýningin um 70 mínútur að lengd.