Karl Breta­prins og sonur hans Harry hafa varla talað saman í átta mánuði og sam­band þeirra hefur aldrei verið verra, að því er breska götu­blaðið The Sun full­yrðir.

Þá gengur götu­blaðið svo langt að full­yrða að Karl sé ein­fald­lega í losti yfir um­mælum sem Harry hefur látið falla á opin­berum vett­vangi að undan­förnu. Harry tjáði sig ný­verið um sádí-arabíska auð­jöfurinn Mah­fouz Marei Mubarak bin Mah­fouz en góð­gerðar­sjóður Karls er nú til rann­sóknar vegna tengsla við auð­jöfurinn.

Sagði Harry að hann hefði sjálfur lýst yfir á­hyggjum af auð­jöfurnum og tengslunum við sádí-arabísk stjórn­völd. Karl hafi á­kveðið að bregðast við þeim um­mælum með þögn þar sem hann telur að opin­berar deilur muni skaða krúnuna.

Þá segir Sun að feðgarnir hafi einungis rætt ör­fáum sinnum saman síðan Harry og Meg­han á­kváðu að segja skilið við bresku konungs­fjöl­skylduna og flytja til Banda­ríkjanna. Það hafi auk þess komið illa við Karl að Harry hafi rætt sam­band þeirra við Opruh Win­frey yopin­ber­lega.

Þá kemur fram í frétt götu­blaðsins að þeir hafi ekki hist þegar Harry var síðast staddur í London. Það var í júlí síðast­liðnum þegar Harry var við­staddur af­hjúpun á styttu Díönu prinsessu. Þá hefur Karl enn ekki hitt sitt nýjasta barna­barn, hina sex mánaða gömlu Lili­bet, dóttur þeirra Harry og Meg­han.