Kári Egilsson heldur stúdentsprófstónleika sína frá rytmískri deild Menntaskóla í tónlist (MÍT) á sunnudaginn. Efnisskráin samanstendur af verkum sem Kári samdi sérstaklega fyrir tónleikana auk nokkurra þekktra djasslaga.

„Þetta er bara spennandi. Ég verð þarna í rauninni með þremur af bestu hljóðfæraleikurum bransans þannig að þetta verður gaman,“ segir píanóleikarinn ungi, spenntur fyrir því að flytja eigin verk með fulltingi Andra Ólafssonar á kontra- og rafbassa, Matthíasar Hemstock á trommur og Jóels Pálssonar á saxófón.

Þótt Kári lifi og hrærist í heimi tónlistarinnar gefur hann sér tíma í ýmislegt annað en að semja og spila á píanóið.
Fréttablaðið/Valli

Klassískt samhengi

Kári er einnig að útskrifast af klassískri braut MÍT og heldur klassíska einleikstónleika í maí þar sem tónlist hans mun einnig hljóma. „Þá ætla ég að taka eitt frumsamið verk en síðan eru þetta að mestu leyti bara Beethoven, Ravel og Liszt og svona,“ segir Kári og nefnir Ravel sérstaklega þegar hann er spurður hvort einhver eldri meistaranna sé í sérstöku uppáhaldi. „Hljómarnir og harmónían frá honum hafa svo áhrif á djassinn seinna,“ segir Kári og bætir við að í tónlistinni hangi þetta allt saman.

Stendur þá kannski djassinn næst hjartanu?

„Nei, nei, ég hef gaman af öllu. Ég hef verið í klassískri tónlist síðan ég var sjö ára og hef samið tónlist af alls konar tegundum mjög lengi. Ég hef ekki mjög gaman af því að takmarka mig,“ segir Kári, sem veit þó hvar hann dregur línuna.

„Ég hef mjög gaman af alls konar tónlist en ég er kannski ekki í öllu og er ekki að fara að gefa út einhverja sítar-plötu,“ segir hann og hlær. „Ég fer ekki út í það en hef gaman af því að vera opinn.“

Klár í plötuútgáfu

„Hann semur gríðarlega mikið af tónlist í ýmsum stílum,“ segir Egill Helgason, faðir Kára, og lætur fljóta með að hann stefni á að koma djassplötu út á þessu ári. Jafnvel poppplötu líka.

„Við ætlum að reyna að taka eitthvað upp. Það er ekki komið neitt fast en ég ætla að stefna að því,“ segir tónskáldið fjölhæfa, sem ætlar sér greinilega að gefa út plötu fyrr en síðar þótt sítarinn liggi óbættur hjá garði.

Þótt Kári lifi og hrærist í heimi tónlistarinnar gefur hann sér tíma í ýmislegt annað en að semja og spila á píanóið. „Það er gaman að vera með fjölskyldunni sinni,“ segir hann. Áhugamálin eru síðan ekki síður fjölbreytt en tónlistarstefnurnar sem hann stúderar og þar má til dæmis nefna skák, bandaríska forseta og varaforseta og Simpson-fjölskylduna.

Ólíkir klassíkerar

„Ég er samt mest í tónlistinni og hún er kannski eina áhugamálið sem ég tek alvarlega og það eina sem ég legg mikinn metnað í,“ segir Kári, en staðfestir að hann hafi lengi verið hrifinn af The Simpsons og stelist enn í þátt og þátt.

„Já, ég er mikið í Simpsons þótt ég horfi nú ekki alltaf á þá en ég horfði mikið sem barn. Þeir hafa dalað ansi mikið og eru ekki jafn góðir þótt þeir séu ekkert ömurlegir,“ segir Kári um sjónvarpsþættina sem enn sér ekki fyrir endann á þótt þeir hafi gengið áratugum saman.

„Þannig að þegar ég horfi þá eru það frekar sígildu seríurnar,“ segir Kári og er í takti við aðra einlæga aðdáendur sem telja árganga fjögur til níu til gullaldarinnar. „Þetta nær kannski upp í tíu en þeir eru góðir þessir sígildu,“ segir Kári sem þekkir sína klassík og hvað það er sem gerir hana sígilda. „Það er sígildið. Hómer og Ravel,“ segir tónlistarmaðurinn ungi og hlær.

Tónleikarnir fara fram í Hátíðarsal FÍH, Rauðagerði 27, á sunnudaginn klukkan 19.30. Áhorfendur eru velkomnir þar sem í núverandi ástandi er nokkur gestafjöldi leyfður en einnig verður streymt frá tónleikunum á YouTube.