Skáldsagan Kapítóla eftir Emmu D.E.N. Southworth kom fyrst út í Bandaríkjunum árið 1859 en Íslendingar kynntust henni fyrst sem framhaldssögu í tímaritinu Heimskringlu 1896-97 í þýðingu Eggerts Jóhannssonar. Síðan hefur Kapítóla komið margoft út hér á landi og verið gríðarlega ástsæl og dæmi eru um að stúlkur hafi verið skírðar Kapítóla í höfuðið á hinni tápmiklu og geðþekku söguhetju. Endurútgáfa leit dagsins ljós nú á dögunum og bókin fór strax á metsölulista og hefur verið ofarlega allt frá því. Silja Aðalsteinsdóttir hafði umsjón með útgáfunni.

Eftirminnileg persóna

Silja segir þessar góðu viðtökur lesenda ekki koma sér á óvart. „Ég hafði aldrei lesið Kapítólu en heyrt talað um hana og sagt frá henni. Þannig getur maður fengið tilfinningu fyrir því að maður þekki bók þótt maður hafi ekki lesið hana. Á síðasta ári fékk ég upphringingu frá Hljóðbókasafninu og var beðin um að lesa bókina fyrir safnið. Ég stökk á það því mig langaði til að lesa bókina. Mér fannst hún gríðarlega skemmtileg og er ekkert hissa á að fólk skuli grípa hana núna tveimur höndum.“

Af hverju á bókin enn erindi við lesendur?

„Þetta er heillandi ævintýri þar sem barátta góðs og ills er þannig að það er alveg farið út á ystu brúnir. En hún endar vel og skilur lesandann eftir glaðan. Svo er þessi eftirminnilega persóna, stelpan sem ögrar öllu og öllum, án þess þó að vera kvikindi. Kapítóla er góð og væn, hugkvæm og gáfuð og hefur betur í öllum orrustum. Hún gleður mann.“

Vildi ekki nútímavæða textann

Talið berst að þýðingu Eggerts Jóhannssonar sem Silja yfirfór. Hún segir þýðingu Eggerts góða í öllum aðalatriðum. „Eggert var rómaður stílisti. Hann var óskólagenginn en mikill lestrarhestur og hafði furðulega góð tök á ensku. Við skulum átta okkur á því að hann hafði engar orðabækur við þessa vinnu en það er ótrúlega sjaldan sem hann verður ber að þýðingarvillum. Bókin er mjög kómísk en hann hafði smekk fyrir fyndni og dró ekki úr því. Stíllinn í íslensku þýðingunni er hraðari en í enska frumtextanum, því hún er talsvert mikið stytt en yfirleitt til bóta. Eggert stytti langlokur en að vísu bætti hann einstaka sinnum við sínum eigin langlokum.

En þótt þýðing Eggerts sé góð er hún orðin meira en hundrað ára og málið hefur auðvitað breyst mikið á þessum langa tíma. En ég stillti mig um að nútímavæða textann. Þessi bók hefur verið elskuð af Íslendingum í öll þessi ár, gefin út hvað eftir annað, og ef ég hefði farið að þýða inn í hana það sem Eggert sleppti og breyta textanum í takt við nútímamál þá hefði ég skemmt þá Kapítólu sem svo margir halda upp á.

Á einstaka stöðum fannst mér Eggert þó ekki vanda sig, eins og í frásögninni af því þegar Kapítóla sér í speglinum að það eru bófar undir rúminu hennar. Litla þjónustustúlkan hennar leitar að inniskóm húsmóður sinnar og það liggur við að hún káfi á andlitum ræningjanna. Kapítóla fylgist með því í speglinum og er við það að fá hjartaáfall. Þetta atvik hljóp Eggert yfir, það fannst mér ómögulegt og bætti því við. Það voru örfá svona tilvik, til dæmis í yfirheyrslum yfir Kapítólu í New York þar sem hún talar um að hún hafi klæðst strákafötum til að verjast vondum mönnum. Því sleppti Eggert en ég bætti úr því.“

Óttalaus Kapítóla

Þótt saga Kapítólu sé ævintýraleg segir Silja hana einnig vera raunsæja á sinn hátt. „Emma Southworth sagðist vita um stúlkur sem hefðu lent sama vanda og persónur bókarinnar, til dæmis verið neyddar í hjónaband af vondum mönnum sem vildu ná í peningana þeirra eða sviknar í tryggðum. Henni fannst hún ekki vera að skrifa ævintýri, það var bara þessi persóna, Kapítóla, sem var ýktari en í venjulegri raunsæissögu.

Á þessum tíma voru millistéttar- og hástéttarstelpur aldar upp við að sitja kyrrar við lestur og útsaum. Þær fengu aldrei að erfiða og reyna á líkamann og ekki máttu þær hlaupa. Þetta var að gera konur ónýtar til þess eina verkefnis sem þeim var ætlað, sem var að eiga börn. Læknar í Bandaríkjunum skrifuðu um að ungar konur væru að verða ófærar um að ganga með börn vegna hreyfingarleysis. Kapítóla var fyrsta bókin sem virkilega sýnir stelpu sem þorði að reyna á sig og hún hafði mikil áhrif. Kapítóla óttaðist ekkert.“

Kap VE

Spurð hvort hún hafi heyrt frá Kapítóluaðdáendum eftir að endurútgáfan kom út segir Silja: „Ég var í kvennaboði um daginn þar sem var talað um Kapítólu og það kom heilagur svipur á alla.“ Á dögunum fékk Silja svo netskilaboð frá einum af hinum fjölmörgu aðdáendum Kapítólu. Sá heitir Óli Þór og er úr Eyjum. Skilaboð hans eru svo skemmtileg að ekki er annað hægt en að birta þau í heild: „Bókin um Kapítólu er sú bók hér á heimilinu sem við getum sagt að hafi verið lesin upp til agna. Datt í hug að koma því hér að til gamans, af því ég er Eyjastrákur, að útgerðarmaður einn í Eyjum var svo hrifinn af bókinni að hann nefndi bát sinn Kapítólu. Það var seinna stytt í Kap VE og ég veit ekki betur en að það nafn sé enn til í Eyjum. Bátar sem hafa borið þetta nafn hafa reynst hin mestu afla- og happafley. Stundum þegar sagt var frá aflabrögðum hér í den á RÚV áttu fréttamenn það til að karlgera nafnið Kap.“