Kvikmyndir

I Care a Lot

★★★★

Leikstjórn: J Blakeson

Aðalhlutverk: Rosamund Pike, Peter Dinklage, Eiza González, Dianne Wiest

Titill I Care a Lot er í fullkominni mótsögn við innihaldið þar sem rotnar persónur hennar hirða síst af öllu um umhyggju. Nema þá sem yfirskyn til þess að græða sem mest á kostnað þeirra sem minna mega sín.

Líklega hefur einkunnin „ógeðslega góð mynd“ aldrei átt jafn vel við og í þessu tilfelli þar sem I Care a Lot er bráðsnjöll og næstum ómótstæðilega andstyggileg saga manneskju sem í einhvers konar síðkapítalísku geðrofi gerir sér varnarlaus gamalmenni að féþúfu.

Marla Grayson gerir út á sjálfræðissvipta eldri borgara sem dómkvaddur tilsjónarmaður og er sem slík eins og pabbi Britneyjar Spears á amfetamínsterum þar sem hún sankar að sér varnarlausum skjólstæðingum, kemur þeim fyrir á elliheimilum og féflettir síðan af ískaldri nákvæmni og yfirvegun þar til ekkert er eftir.

Bömmer boomeranna

I Care a Lot hefði þess vegna getað orðið nístandi mynd um hryllinginn sem vampírukynslóð eftirstríðsáranna upplifir þegar hún missir tökin á lífi sínu og fjárráðum í ellinni og lendir í hakkavél kapítalíska kerfisins sem hún hannaði og hefur miklu meiri áhuga á þeim sem stærðum og upphæðum í Excel-skjölum en manneskjum.

Myndin er þó mun flóknari en svo þar sem Marla grefur sér, blinduð af græðgi, gröf á mettíma þegar hún sölsar undir sig líf ljúfrar konu um sjötugt sem reynist allt of stór biti að kyngja þar sem undir sauðargæru vægra elliglapa leynist ættmóðir rússneskra mafíósa sem hafa nákvæmlega engan húmor fyrir svikamyllu Mörlu.

Vont fólk

Kjarninn í persónugalleríi I Care a Lot er ógeðslegt fólk, svo ekki sé fastar að orði kveðið, og þar fer Rosamund Pike langfremst meðal jafningja í hlutverki Mörlu. Pike er óþolandi góð í þessu hlutverki. Alveg magnað hversu auðvelt hún á með að túlka ógeðslega vondar konur en þarna eimir einnig eftir af hinni kaldlyndu Amy Dunne, sem Pike lék í Gone Girl.

Sú dásamlega leikkona Diane Wiest leikur þá gömlu sem lýsir sér sjálf sem verstu mistökum sem Marla hefur gert. Wiest er í raun sorglega vannýtt í myndinni enda ekki til stórræðanna í gæsluvarðhaldi Mörlu á elliheimilinu þar sem hún er geymd á meðan öldrunarhryllingurinn er látinn víkja fyrir krimmahasar þar sem Marla mætir mögulega ofjarli sínum í glæpaforingjanum Roman Lunyov sem Peter Dinklage, uppáhalds dvergurinn okkar allra, Tyrion úr Game of Thrones, gerir ferlega skemmtileg skil.

Jafnréttisbarátta illskunnar

Blóðug barátta Mörlu og Romans um eftirlaunagullgæsina keyrir seinni hluta sögunnar áfram í kostulegum hráskinnaleik þar sem við eigast svo andstyggilegar manneskjur að nánast ómögulegt er að gera upp á milli hvort er verra en hitt.

Undir glæpsamlegu yfirborðinu kraumar síðan barátta kynjanna og því varla tilviljun að karlinn er dvergur sem fer heldur halloka fyrir valdefldri ljónynjunni hertri í kapítalískum vítislogum.

Marla hefur höndlað þann sannleik að heiðarleiki og sanngirni eru brandari sem þeir ríku fundu upp til þess að halda hinum fátæku niðri og slíkt lætur hún ekki bjóða sér. Enda búin að fatta djókinn.

Kapítalískt kynjastríð myndarinnar kristallast í banvænni refskák dvergs og ljónynju sem Peter Dinklage og Rosamund Pike túlka af mikilli íþrótt.

„Heimurinn samanstendur af ljónum og lömbum og ég er fokkings ljónynja,“ segir Marla þegar hún kynnir sig sjálf til sögunnar og hún ætlar sér að verða rík. „Virkilega ógeðslega rík.“ Bara svo það sé á hreinu og vei þeim sem ætlar að standa í vegi hennar.

Það er kannski engin sérstök þörf á djúpu innsæi eða gráðu í bókmenntafræði til þess að greina ádeiluna í myndinni sem nuddar áhorfendum upp úr því hvernig græðgin, sem var svo móðins á níunda áratugnum, étur upp allt hið mennska í krafti síðkapítalismans.

Kapítalískar ókindur

Þetta er ágæt vísa sem varla verður of oft kveðin og hljómar býsna sannfærandi í meðförum Rosa­mund Pike og Mörlu Grayson sem eru í sjálfum sér uppspretta miklu áhugaverðari pælinga þar sem stóra spurningin er af hverju miskunnarlausar, siðlausar og ofurmetnaðarfullar konur í kvikmyndum virka svona viðbjóðslega óþolandi?

Marla er svo andstyggileg manneskja að það er ekki hægt annað en að hatast innilega við hana og óska henni alls ills. Hún er skrímsli myndarinnar. Mögulega vegna þess að þegar kona tileinkar sér eiginleika sem þykja svo náttúrulega karllægir og sjálfsagðir þá verður hún jafn mótsagnakennt skrímsli og klaufdýr sem jórtra ekki og eru sem slík bannfærð í Biblíunni?

I Care a Lot, titill myndarinnar, er vitaskuld hlaðinn merkingu sem tengist kvenlegum dyggðum; samkenndinni og umönnunarhlutverkinu sem er konum áskipað og þykir fara þeim svo vel á meðan látið er eins og um náttúrulögmál sé að ræða.

Auðvitað snýst þetta upp í andhverfu sína þegar kven-andhetjan stígur fram sem siðlaus, gráðug, viðbjóðslega stjórnlynd og rotin inn að beini þannig að hrollur fer um karllægan heim kapítalismans þegar hún urrar og sýnir klærnar.

Niðurstaða: Bleksvört kómedía og baneitruð ádeila á síðkapítalismann sem sýnir skilgetin afkvæmi hans sem svo ógeðslegar skepnur, gersneyddar allri mennsku, þannig að stundum tekur svo á að horfa ógrátandi upp á sjálfsagt siðleysið í mynd sem er svo ágeng og góð að hún gerir mann brjálaðan af reiði.