„Þegar ég býð mig fram til for­seta árið 2024,“ sagði rapparinn Kanye West á ráð­stefnu tíma­ritsins Fast Company sem á sér nú stað í New York en hann var staddur á ráðstefnunni til að ræða skómerki sitt, Yeezy. Kanye upp­skar tölu­verðan hlátur hjá við­stöddum eftir um­mælin en svo virðist sem honum hafi verið full­kom­lega al­vara.

„Af hverju eruð þið að hlæja,“ sagði Kanye há­alvar­legur á svip áður en hann hélt á­fram. „Þegar ég býð mig fram til for­seta árið 2024 munum við hafa skapað svo mörg störf að ég mun í raun ganga,“ sagði Kanye og lék sér þannig að enska orðinu „run“ sem getur bæði þýtt að hlaupa og að bjóða sig fram.

„Það sem ég er að segja er að þegar þið lesið fyrir­sagnirnar „Kanye er klikkaður. Kanye er hitt og þetta,“ þá er það þannig að einn af hverjum þremur af svörtum karl­mönnum í Banda­ríkjunum er í fangelsi og allt fræga fólkið er líka í fangelsi því það getur ekki sagt neitt,“ sagði Kanye og lýsti því að fræga fólkið væri hrætt við að tjá sig.

Kanye hefur oft sagst hafa á­huga á for­seta­em­bættinu en lengi vel hélt hann því fram að hann myndi bjóða sig fram á næsta ári. Mögu­lega hætti hann við þá á­kvörðun vegna sam­bands síns við Banda­ríkja­for­seta Donald Trumps, sem býður sig fram til annars kjör­tíma­bils á næsta ári.