Tón­listar­maðurinn Kanye West og fata­fyrir­tækið Gap hafa tekið höndum saman og mun fatnaður undir merkjum Yeezy Gap brátt líta dagsins ljós. West og Gap gera með sér tíu ára samning en búist er við því að fatnaðurinn komi á markað á fyrri hluta næsta árs.

Gap hefur átt undir högg að sækja í kórónu­veirufar­aldrinum og þá hefur fyrir­tækið verið í á­kveðinni til­vistar­kreppu á undanförnum árum. Á sama tíma hefur Yeezy-merki Kanye West notið gríðar­legra vin­sælda.

Ljóst er að Kanye West þykir vænt um fyrir­tækið en hann starfaði hjá Gap þegar hann var ung­lingur. Í við­tali við tíma­ritið Cut árið 2015 sagði hann að draumur hans hefði verið að verða yfir­hönnuður Gap.

Margir eru spenntir fyrir sam­starfinu en að því er segir í til­kynningu frá Gap verða alls­konar föt í boði á við­ráðan­legu verði fyrir karla, konur og börn.