Rapparinn Kanye West er hættur að fylgja fyrrum eigin­konu sinni Kim Kar­dashian og systrum hennar á Twitter. Ekki liggur fyrir hvort hann hafi hætt að fylgja þeim fyrir eða eftir þær óskuðu honum allar hamingju með 44 ára af­mælið á sam­fé­lags­miðlum síðast­liðinn þriðju­dag.

Kanye fylgir enn einum fjöl­skyldu­með­lim á Insta­gram og er það barns­móðir hans Kim. Það er þó ó­víst hversu lengi það endist nú þegar hann er sagður vera í sam­bandi með fyrir­sætunni Irinu Shayk.

Parið ferðaðist til Frakk­lands í vikunni til að halda upp á af­mæli rapparans og héldu fögnuðinum síðan á­fram í Banda­ríkjunum.

Kim hefur greint frá því að hún sé ekki ó­sátt með sam­bandið þrátt fyrir að það hafi byrjað í miðjum skilnaði. Raun­veru­leika­stjarnan vill bara að faðir barna hennar sé hamingju­samur.

Ein­mana­legt hjóna­band

Kim sótti um skilnað frá rapparanum í febrúar síðast­liðinn vegna erfið­leika innan hjóna­bandsins en hjónin voru gift í nærri sjö ár og eiga saman fjögur börn.

Sam­­kvæmt fjöl­­miðlum vestan­hafs hefur Kim óskað eftir sam­eigin­­legu for­ræði yfir börnum þeirra en hvorki hún né Kanye hafa tjáð sig mikið opin­ber­­lega um skilnaðinn.

Kim hefur þó sagt að hún hafi verið ein­mana í hjóna­bandinu og kvaðst ekki vilja eyða lífi sínu ein með börnunum sínum á meðan eigin­maður hennar byggi í öðru fylki.