Kanye West opnar allar gáttir í nýju við­tali við Zane Lowe fyrir App­le Music Beats en þar ræðir hann meðal annars um von sína um að verða for­seti Banda­ríkjanna, erjurnar við Dra­ke, kyn­lífs­fíkn og sam­band sitt við guð. Rapparinn settist niður með Lowe á bú­garði sínum í Wyoming en að­eins er búið að birta nokkrar klippur úr við­talinu, sem spannar í heild sinni um þrjá klukku­tíma.

Kanye gefur ekkert eftir í við­talinu og ræðir til dæmis mögu­leikann á því að hann verði for­seti. „Frjáls­lyndir elska list ekki satt? Og núna er ég án alls efa besti mennski lista­maður allra tíma. Það er ekki einu sinni spurning heldur stað­reynd,“ sagði lista­maðurinn. „Það mun koma tími þar sem ég verð for­seti Banda­ríkjanna,“ bætti hann svo við.

Vill ekki að dætur sínar klæðist maga­bolum

Það mikil­vægasta í lífi Kanye virðist þó ekki vera pólitík heldur fjöl­skylda og kristin trú. Þá segist hann hafa breyst mikið á síðustu árum og hafa tekið upp ný gildi eftir að hann fór að ganga með Jesú. Hann bendir á að hann myndi ekki vilja að dóttir hans North myndi ganga í maga­bolum bara vegna þess að hann hafi klætt hana í á­líka klæðnað þegar hún var tveggja ára.

„Ég hugsa og mér líður öðru­vísi núna þegar ég er orðinn kristinn, núna þegar ég er stofnandi þriggja biljón króna fyrir­tækis og hef verið giftur í fimm ár,“ segir Kanye sem hefur að eigin sögn lært mikið af hjóna­bandi sínu við Kim Kar­dashian. „Það er guð­leg tenging að hafa ein­hvern sem þú getur treyst [..] ein­hvern sem þú getur kvartað við, ein­hvern til að verða gamall með á meðan við ölum börnin okkar upp.“

Á leið sinni til að verða betri maður Kanye hefur komið sér upp kristi­legu stiga­spjaldi þar sem hann leyfir sér að­eins að blóta tvisvar sinnum á dag. „Þetta er eins og tölvu­leikur, fólk segir að guð sé ekki að telja stigin en ég gaf sjálfum mér stiga­spjald,“ sagði rapparinn og hvetur aðra til að gera slíkt hið sama.

Kanye sesir hjónaband sitt við Kim vera guðsgjöf.
Fréttablaðið/Getty

Dra­ke neitaði að tala við Kanye

Kanye er sann­færður um að guð sé brandara­kall og bendir til dæmis á að það sé fyndið að Dra­ke búi að­eins fjórum götum frá honum. „Þú getur ekki þjónað guði og átt í erjum við bróður þinn.“ Kanye lýsti því síðan þegar hann hafi heim­sótt Dra­ke og látið hann fá síma­númerið sitt.

Þá sagðist hann þurfa að tjá sig ef eitt­hvað væri að angra hann annars gæti hann ekki sofið. „Ég og Dra­ke áttum í okkar á­greining og svo neitaði hann að tala við mig í sex mánuði. Það var sárs­auka­fullt vegna þess að tjáning er form af þerapíu.“

Bannaði fólki að stunda kyn­líf fyrir hjóna­band

Í við­talinu ræddi Kanye einnig gerð nýrrar plötu hans Jesus is King. Hann sagði ferlið hafa verið krefjandi þar sem platan skipti hann svo miklu máli. Þá krafðist hann mikils af fólkinu sem vann með honum að plötunni. „Það kom tími þar sem ég bað ó­gift fólk um að sleppa því að stunda kyn­líf á meðan þau unnu að plötunni.“

Ljóst er að að­dá­endur Kanye geta hlakkað til þess að horfa á við­talið í fullri lengd en það á að birtast seinna í dag.

West fjölskldan á búgarði sínum í Wyoming.
Mynd/Instagram