Banda­ríski tón­listar­maðurinn Kanye West hyggst gefa kost á sér til em­bættis for­seta Banda­ríkjanna árið 2024. Hann kveðst taka því al­var­lega en úti­lokar fram­boð árið 2020 líkt og hann hafði áður boðað á MTV-tón­listar­mynd­banda­verð­laununum árið 2015. 

„Já, 100 prósent. Það verður árið 2024,“ sagði Kanye að­spurður út í fram­boð í út­varps­við­tali í þættinum Power 92 Chi­cago hjá DJ Phar­ris á fimmtu­dag. „Ef ég á­kveð að gera það, þá geri ég það. Ég geri það ekki bara til þess að reyna.“ Kanye og DJ Pharris ræddu saman í rúmlega klukkustund en þar bar ýmislegt á góma. 

Forsetaframboð, heimkoma Kanyes til Chicago og upprennandi rapparar í senunni var meðal þess sem þeir félagar ræddu.

Sagðist hann einkum myndu beita sér fyrir bættu heil­brigðis­kerfi yrði hann kjörinn for­seti. „Ég myndi sjá til þess að heil­brigðis­kerfið blómstraði.“ 

Þá sagði hann mikilvægt að fara skynsamlega með fjár­reiður ríkisins og að Donald Trump, nú­verandi for­seti, hefði staðið sig vel í þeim efnum. 

„At­vinnu­leysi fer lækkandi og skatt­peningum er vel varið,“ sagði Kanye sem að stað­setur sjálfan sig í miðjunni á pólitíska lit­rófinu. Hann segist líta upp til bæði Trumps og Berni­e Sanders, fram­bjóðanda í for­vali Demó­krata til for­seta­kosninganna 2016.