Banda­ríska kántrýstjarnan Loretta Lynn er látin, 90 ára að aldri. Fjöl­skylda hennar stað­festi að hún hefði látist á heimili sínu í Hurri­ca­ne Mills í Tennes­see í Banda­ríkjunum.

Lynn gaf út lagið Don‘t Come Home a Drin­kin‘ (With a Lo­vin‘ on Your Mind) árið 1966 og skaust hún þá til frægðar, síðan þá hafa lög frá henni setið á banda­ríska kántrý-topp­listanum. Hún vann þrjú Gram­my verð­laun og var til­nefnd til á­tján í heildina. Alls gaf Lynn út sex­tíu plötur.

Hún fæddist í Ken­tucky árið 1932, og var ein af átta syst­kinum. Faðir hennar var kola­námu­maður, en það var inn­blástur að einu þekktasta lagi hennar Coal Miner‘s D­aug­hter.

Þegar hún var einungis fimm­tán ára giftist hún eigin­manni sínum til 48 ára, honum Oli­ver Lynn. Saman eignuðust þau sex börn, þrjú þeirra fæddust áður en Lynn varð tví­tug.

Eigin­maður hennar gaf henni gítar í gjöf árið 1953 og var það kveikjan að áhuga hennar á tónlist. Hún fór því að semja sín eigin lög og gaf út sitt fyrsta lag árið 1960 en það var lagið I‘m A Hon­ky Tonk Girl.

Árið 1976 gaf Lynn út sjálfs­ævi­sögu, bókina Coal Miner‘s D­aug­hter. Ævi­sagan var síðar gerð að kvik­mynd sem til­nefnd var til sjö Óskars­verð­launa og vann eitt þeirra. Sissy Spacek og Tommy Lee Jones léku í þeirri kvik­mynd.