Nærri þrír fjórðu Kana­da­búa vilja ekki greiða fyrir flutninga Harry og Meg­han til landsins né heldur greiða fyrir öryggis­gæslu vegna þeirra. Frá þessu er greint á vef Daily Mailen þar er vitnað í könnun kanadísku rann­sóknar­stofnunnarinnar Angus Reid.

Líkt og Frétta­blaðið hefur greint frá vinna nú her­toga­hjónin að því í sam­starfi við konungs­fjöl­skylduna og bresk og kanadísk stjórn­völd að tryggja fram­tíð hjónanna. Þar þarf meðal annars að finna út hvernig haldið verður um kostnað í kringum parið, sem vill meira fjár­hags­legt sjálf­stæði. Elísa­bet Bret­lands­drottning hefur sjálf viður­kennt að það sé flókið.

Í könnun stofnunarinnar voru kanadískir borgarar spurðir að því hvernig þeir vilja að ríkis­stjórn þeirra höndli kostnað vegna „öryggis auk annars kostnaðar“ sem fylgir flutningum Harry og Meg­han til landsins. 73 prósent sögðu að þeim finndist að Kana­da­búar ættu ekki að greiða neitt vegna hjónanna, þau ættu að borga það sjálf úr eigin vasa. Þá fannst einungis þrjú prósent að Kana­da­búar ættu að borga hvað sem er fyrir hjónin.

Könnunin var fram­kvæmd dagana 13. til 14. janúar en úr­takið voru 1154 kanadískir ríkis­borgarar. Við­mælendur voru jafn­framt spurðir að því hvað þeim myndi finnast um það ef Harry og Meg­han flyttu til Kanada. Helmingurinn, eða 50 prósent sögðu að sér væri sama vegna málsins. 14 prósent sögðu að þau yrðu mjög á­nægð og 25 prósent að þau yrðu á­nægð.

Ef marka má um­fjöllun Daily Mail er reiknað með því að kostnaður í kringum öryggis­gæslu vegna hjónanna nemi allt að tíu milljónum banda­ríkja­dollara á ári hverju, eða rúmum 1,2 milljarði ís­lenskra króna. Haft er eftir Chris Matt­hews, fyrr­verandi yfir­manni hinnar konung­legrar kanadísku lög­reglu að öryggis­ráð­stafanir í kringum hjónin yrðu svipuð og í kringum for­sætis­ráð­herra landsins.