„Ég átti að fæðast á þorranum en kom aðeins fyrr í heiminn, eða 10. janúar 1989. Þá stóð jafnvel til að skíra mig Sigurð Sölva, eftir langalangafa mínum, en á síðustu stundu ákvað mamma að ég héti Þorri. Hún var svo hrifin af nafninu því hún segir að þorrinn sé boðberi birtunnar og þá fari að birta til í lífinu og maður fari að sjá aðeins mun á dagsbirtunni þegar sólin hækkar á lofti. Mér þykir því mjög vænt um Þorranafnið og það passar mér vel; ég reyni að vera björtum megin í lífinu og færa öðrum birtu í lífi mínu og starfi.“

Siggi Þorri var þó ekki alltaf hrifin af Þorranafninu.

„Ég fékk ekki beint að kenna á því í barnaskóla en ég skammaðist mín fyrir nafnið enda er feimnismál fyrir börn að heita sérstökum nöfnum. Ég var því lítill í mér að heita Þorri og alltaf kallaður Siggi, eða Siggi Gunnars. Það er ekki fyrr en í seinni tíð að ég fer að nota Þorranafnið og ef ég er á annað borð kallaður fullu nafni vil ég alls ekki að menn sleppi Þorra og fer í taugarnar á mér ef ég er kallaður Sigurður án Þorra. Sumir segja að ég hafi valið vitlausa leið í upphafi og frekar átt að kalla mig Þorra Gunnars, því það eru svo margir Siggar, og kannski fer maður í að „re-branda“ það seinna meir, eins og sagt er á auglýsingamáli,“ segir Siggi og hlær.

Sólginn í magál

Sigurður Þorri tengir sterkt við þorrann.

„Já, þetta er svo góður tími, eftir að vera kominn út úr mörsugi sem er erfiðasti mánuður ársins, þegar myrkur og kuldi eru allsráðandi og sýgur úr okkur mörinn. Þá kemur þorrinn, brúnin lyftist og maður fær vonina í brjóst. Ég hef svo tamið mér að strengja aldrei áramótaheit heldur frekar þorraheit. Það hefur reynst mér gæfuríkt, hvort sem heitið tengist betri lífsstíl eða vinnunni. Þetta er minn tími, en ég tengi minna við matarhefðir og menningu þorrans,“ segir Sigurður sem hefur ekki enn strengt þorraheit í ár. „Nei, ég er enn að vinna í þorraheiti sem ég strengdi rétt fyrir heimsfaraldurinn og ætla að þreyja þorrann með það þar til Covid er búið.“

Siggi er lítt gefinn fyrir þorramat og hálfskammast sín fyrir það.

„Ég hef mikið reynt mig við súrsaða þorramatinn en gengið illa. Mér þykja þorrablót skemmtilegur viðburður, ekki síst í Hrísey þar sem ég bjó um tíma og heimamenn koma saman og skemmta sér með brottfluttum. Mig langar til að geta mætt en hef átt erfitt með matinn. Því mun ég seint sjást graðga í mig bringukollum og lundaböggum, en það má lengi vona að maður verði fullgildur þorragestur í stað veimiltítunnar sem fúlsar við þorramatnum,“ segir Siggi Þorri glettinn.

Samkvæmt nafni sínu ætti hann þvert á móti að vera með fötur fullar af súrmat frá KEA.

„En við skulum sjá; maður er alltaf að þroskast. Mér finnst mjög gott að fá mér magál, því það var alltaf til magáll hjá ömmu minni heitinni og ég fer enn aftur í tímann við eldhúsborðið hjá henni þegar ég borða magál. Amma skellti líka reglulega sviðakjömmum á borðið hjá mér, með augun dansandi í hausum, en það virkaði ekki heldur, þótt ég eigi sterkar rætur í Eyjafjarðarsveit. En ég er sólginn í lifrarpylsu og hangikjöt, bara ekki súrt.“

Traustur vinur á þorrablótum

Siggi lauk háskólanámi í fjölmiðlafræði á Englandi, þar sem sláturgerð er líka í hávegum höfð.

„Já, en ég komst ekki upp á lag með haggis, sem er þeirra slátur, og finnst slátrið heiman úr Eyjafirði töluvert betra en það breska. Ég lærði á Norðaustur-Bretlandi þar sem er mikið um fótspor víkinga en þrátt fyrir sterkar víkingarætur fúlsuðu vinir mínir við hákarli og íslensku brennivíni þegar ég bauð þeim í smakk,“ segir Siggi sem hefur margsinnis skemmt landanum á þorrablótum.

„Mér finnst frábært að þorrablót séu að sækja í sig veðrið enda stórskemmtilegur viðburður. Sjálfur hef ég veigrað mér við að mæta til borðs vegna þess að ég tek ekki nógu vel til matar míns. Hins vegar hef ég haldið uppi stuðinu á þorrablótum og einmitt gengið í sali mettaða af súrri og þungri lykt, en það er fjör að skemmta á þorrablótum því þangað eru allir mættir til að skemmta sér. Þó er betra að skemmta fyrr en seinna um kvöldið því menn veita sér vel á þessum blótum. Ég hef bæði verið veislustjóri og plötusnúður og því fylgir alltaf sérstök stemning því maður er minna í nýrri dansmúsík en meira í Traustum vini með Upplyftingu, því fólk er í þjóðræknum gír og allt önnur dýnamík á dansgólfinu.“

Passað upp á einhleyping

Sigurður Þorri ætlar að hefja síðdegisþátt sinn á K100 í dag með því að spila Þorraþrælinn sem hann kann svo vel.

„Mér finnst það fallegt lag og sterkt; ekki síst ljóðið sem hefst á orðunum Nú er frost á Fróni. Það á samt ekkert alltof vel við Þorrann mig, ég er meira fyrir að sleikja sólina en að dúsa í kulda þar sem frýs í æðum blóð.“

Í tilefni bóndadagsins verður Sigga boðið í nautasteik hjá fjölskyldunni.

„Ég á heldur engan sérstakan til að sinna mér á þessum degi, né sem ég get verið góður við, en fjölskyldan passar upp á að einhleypingurinn eigi góðan dag. Hver veit nema ég komi færandi hendi með magál í forrétt, ef hann er til í Melabúðinni,“ segir Siggi Þorri og hlakkar til.

Hann man eftir enn einu skemmtilegu í tengslum við Þorranafnið.

„Sumir kalla mig Sigga, aðrir Sigga Gunnars, en svo er lítill hópur manna sem kallar mig Þorra og Þorra þokka þegar mikið liggur við, því þeim finnst ég svo þokkafullur. Það tók mig tíma að samþykkja þá nafngift en ég er greinilega búinn að samþykkja hana úr því ég segi frá því hér.“