Faðir Meghan Markle segir í viðtali við Channel 5 sjónvarpsstöðina í Bretlandi að með ákvörðun hennar og Harrys að yfirgefa konungsfjölskylduna láti Meghan og Harry krúnuna líta út „eins og Wal Mart með kórónu,“ og vísar þar til bandaríska stórmarkaðarins.
„Þegar þau giftust skuldbundu þau sig konungsfjölskyldunni,“ sagði faðir Meghan, Thomas Markle. Hann sagði bresku konungsfjölskylduna eina elstu og virtustu stofnun í heiminum og það væri illa gert af þeim að yfirgefa hana.
„Þau eru að eyðileggja hana, lítillækka hana og gera hana ómerkilega,“ hélt hann áfram og sagði að hjónin væru „týndar sálir.“
Samband feðginanna hefur verið stormasamt undanfarin ár og meðal annars missti hann af brúðkaupi Meghan og Harrys og er sagt að þau hafi ekki talast við síðan. Ekki er víst að viðtalið muni hjálpa til við að laga samband þeirra.