„Frá því að við hættum að borða rjúpu á jólum af því okkur þótti skemmtilegra að horfa á hana lifandi, höfum við alls ekki haft fasta hefð á aðfangadag. Jóladagur er hins vegar í nokkuð föstum skorðum, þá borðum við heitan hamborgarhrygg og hangikjöt, eins og gert var á æskuheimilinu. Aspassúpa á undan og sérrífrómas á eftir. Hvað varðar aðfangadag þá ákveðum við yfirleitt seint hvað verður í matinn, við höfum haft önd confit, kalkún, lamb og verið alveg vegan í nokkur skipti – til heiðurs syni okkar,“ segir Helgi og bætir við að marga aðfangadaga hafi hann verið fjarri heimilinu. „Ég var oft á sjó í gamla dag, ein jól vorum við fjölskyldan öll að vinna á sveitahóteli yfir hátíðirnar, í eitt skipti eldaði ég í súpueldhúsi úti á Granda og í tvö skipti vann ég að heimildarmynd á þessum degi; með lögreglunni og svo með fjölskyldu í Breiðholtinu. Við höfum líka prófað að halda jól í útlöndum,“ segir Helgi.

Hvað er ómissandi að hafa á boðstólnum um hátíðarnar?

„Mesta uppáhaldið í kringum hátíðirnar er skötuveislan á Þorláksmessu. Við erum svo heppin að fá að borða hjá Kristjáni Einari Gíslasyni skipstjóra en hann veiðir skötuna sjálfur og verkar, gerir það firnavel. Það er líka ýmislegt ómissandi á jólum, svo sem tartalettur, sörur, malt & appelsín.“

Við fengum Helga til fletta ofan af spennandi rétti sem vert er að prófa til dæmis á gamlárskvöld. „Mig langar að deila uppskrift með lesendum sem ég lærði nýlega. Þetta er kalkúnaréttur sem er þess eðlis að það má elda hann 90 prósent nokkrum dögum fyrir jól. Svo tekur aðeins 20 mínútur að hita hann í ofni áður en honum er skellt á borðið. Þetta eru kalkúnalæri confit sem eru elduð á sama máta og Frakkar elda andalæri. Kalkúnalærið er úrvalskjöt og þegar það er eldað með þessum hætti verður til réttur sem er afar hátíðlegur.“

Kalkúnalærið er úrvalskjöt og hátíðarmatur hægt er að elda það á franska vísu eins og anda confit og bráðnar í munni.

Kalkúnalæri confit

Fyrir fjóra (afgangur verður til daginn eftir)

8 kalkúnalæri

1 lítri andafita

½ lítri ólífuolía

2 tsk. salt

1 msk. ferskt timían

½ hvítlaukur

Takið kalkúnalærin og setjið í stórt fat. Merjið hvítlaukinn og makið honum á lærið. Saltið og dreifið timían yfir. Plastið og geymið yfir nótt í ísskáp, í 6 stundir eða yfir nótt.

Raðið kalkúnalærunum í eldfast mót, hellið andafitunni og ólífuolíunni þannig að fljóti yfir. Setjið í ofn, eldið við 90°C í sjö klukkustundir. Takið út og látið kólna.

Kalkúnaleggirnir geymast í þessari olíu í viku. Þetta er í raun gömul geymsluaðferð.

Klukkutíma fyrir mat

Takið fatið út og geymið á borði. Takið kalkúnaleggina upp úr fitunni og raðið í eldfast mót. Hitið ofninn í 180°C og setjið eldfasta mótið inn. Eldið þar til húðin er orðin stökk og gullin – og kalkúnninn heitur í gegn, tekur oftast um 20 mínútur.

Með þessu er gott að bera fram trönuberja- eða kalkúnasósu, brúnaðar eða sætar kartöflur, Waldorf-salat, rósakál eða hvaðeina sem er í uppáhaldi.