Vaxtarræktarfrömuðurinn Kai Greene hefur skorað á heljarmennið Hafþór Júlíus Björnsson að hætta blessuðu kjötátinu og skipta yfir í plöntufæði að hætti grænkera. Og viti menn! Hafþór útilokar ekki að hann muni gefa plöntufæðinu séns á næstunni, þó ekki á meðan hann undirbýr sig fyrir keppni í lyftingum.

„En samt að öllu gríni slepptu þá er vegan mataræði árangursríkara fyrir kraftlyftingamenn heldur en vaxtarræktarfólk – svo þú myndir græða meira á því en ég,“ heldur Greene áfram en hann ákvað í vikunni að skipta yfir á plöntufæðið eftir að hafa horft á heimildarmynd um góð áhrif þess fyrir íþróttamenn.

Gefur öllu séns

Hafþór er ekki þekktur fyrir að skorast undan áskorunum og svaraði færslu Greene eins og búast mátti við. „Þetta er svo sannarlega áhugavert! Ég prófa þetta kannski í viku eða svo þegar keppnistímabilið er búið,“ sagði Hafþór. „Ég er alltaf til í að gefa öllu séns! Sérstaklega þegar það kemur frá goðsögnum eins og Arnold Schwarzenegger og Kai Greene.“

Nú verður spennandi að sjá hvort Hafþór, eða Fjallið eins og margir kalla hann, láti verða af áskoruninni og hvernig honum mun þá líka grænkerafæðið. Hver veit nema að Hafþór endi á að verða vegan fyrir lífstíð!