Bók­mennta­há­tíðin Iceland Noir fer fram í Reykja­vík um þessar mundir í sjötta sinn. Há­tíðin var stofnuð 2013 af rit­höfundunum Ragnari Jónas­syni og Yrsu Sigurðar­dóttur, auk breska rit­höfundarins Quentin Bates, og var upp­haf­lega hugsuð sem vett­vangur fyrir glæpa- og spennu­sögur en í dag er búið að auka á fjöl­breytnina og blanda inn ýmsum öðrum bók­mennta­greinum.

Ragnar: „Við fundum mikinn á­huga hjá rit­höfundum er­lendis sem við vorum að hitta um að koma til Ís­lands og við vorum eigin­lega bara að búa til vett­vang fyrir aðra höfunda til að geta komið og talað um sínar bækur. Upp­haf­lega voru þetta bara glæpa­sögur en nú erum við að tala um hvers kyns bók­menntir.“

Yrsa: „Hluti af því sem drífur okkur á­fram í dag er að auka á­huga á fjöl­breyttum bók­menntum.“

Þau Ragnar og Yrsa hafa alltaf lagt ríka á­herslu á að bjóða er­lendum rit­höfundum á Iceland Noir en fjöldi þekktra höfunda hefur sótt há­tíðina heim á borð við Ann C­lea­ves, Ant­hony Hor­owitz og Ian Rankin.

Ragnar: „Stemningin hefur verið sú að höfundar og les­endur blandast saman í einum stórum graut þannig að þetta verður mjög náið og þægi­legt and­rúms­loft. Les­endur rekast á sína upp­á­halds­höfunda og fá sér kaffi með þeim.“

Stemningin hefur verið sú að höfundar og les­endur blandast saman í einum stórum graut þannig að þetta verður mjög náið og þægi­legt and­rúms­loft.

Skipu­lagning í sjálf­boða­vinnu

Að sögn Ragnars hefur há­tíðin vaxið tölu­vert á undan­förnum árum en von er á um 200 er­lendum gestum, sumum alla leið frá Singa­por­e, og 50 er­lendum höfundum á Iceland Noir þetta árið auk þess sem fjöldi Ís­lendinga sækir há­tíðina, bæði gestir og höfundar.

Ragnar: „Við erum að gera þetta allt í sjálf­boða­vinnu og mark­miðið með þessu hefur aldrei verið annað en að fá skemmti­lega höfunda til Ís­lands og að koma ís­lenskum bók­menntum á fram­færi. Hingað koma líka blaða­menn, út­gef­endur og um­boðs­menn.“

Yrsa bætir því við að Iceland Noir hafi þegar skapað ís­lenskum rit­höfundum dýr­mæt tæki­færi.

Yrsa: „Við höfum getað komið ís­lenskum höfundum sem eru ekki gefnir út er­lendis á pall­borð þannig að út­gef­endur og um­boðs­menn sem eru að leita að höfundum, geta séð þessa höfunda á sviði. Maður fær eigin­lega ekkert slíkt pláss á er­lendum bók­mennta­við­burðum nema að hafa þegar verið þýddur eða þýdd. Að minnsta kosti þrír ís­lenskir höfundar sem komið hafa fram á há­tíðinni hafa fengið samning við stóra er­lenda um­boðs­skrif­stofu í fram­haldinu.“

Booker-verðlaunahafinn Bernardine Evaristo kemur fram á Iceland Noir í ár.
Fréttablaðið/Getty

Fjöl­breytt sjónar­horn

Nokkrir heims­þekktir er­lendir höfundar koma fram á Iceland Noir í ár, Litt­le Britain-stjarnan David Walli­ams tók for­skot á sæluna um síðustu helgi og í vikunni koma fram met­sölu­höfundurinn Richard Os­man og Booker-verð­launa­hafinn Bernardine Evari­sto auk met­sölu­höfundanna Paulu Hawkins og AJ Finn. Þá koma fram fjöl­margir ís­lenskir höfundar, glæpa­sagna­höfundar sem og aðrir ís­lenskir höfundar á borð við Auði Jóns­dóttur, Sverri Nor­land, Elizu Reid, Kamillu Einars­dóttur og Maríu Elísa­betu Braga­dóttur.

Hver er á­stæðan fyrir því að þið á­kváðuð að víkka út dag­skrána og taka inn höfunda sem eru ekki glæpa­sagna­höfundar?

Ragnar: „Við vildum hafa dag­skrána fjöl­breyttari og leyfa henni að endur­spegla á­huga­svið okkar um­fram glæpa­sögur. Við lesum allar mögu­legar bækur og það er svo­lítið erfitt að tak­marka sig við eina grein. Þannig að ég held að þetta sé vonandi á­huga­verðara fyrir gesti há­tíðarinnar auk þess sem þetta gefur okkur tæki­færi til að fá inn enn fleiri höfunda.“

Yrsa: „Við eigum okkur þann draum að á næstu há­tíðum getum við tekið höfunda og lista­fólk frá enn fjar­lægari ströndum en að þessu sinni. En þetta er náttúr­lega há­tíð sem hefur ekki nægi­legt fjár­hags­legt bol­magn til þess nema til komi styrkir í takt við þann aukna kostnað sem yrði því sam­fara.“

Litt­le Britain-stjarnan David Walli­ams kom fram á viðburðum um síðustu helgi.
Fréttablaðið/Getty

Glæpa­sögur eigi fullan rétt á sér

Áður fyrr þóttu glæpa­sögur ekki fínar bók­menntir, hefur orðið breyting þar á?

Yrsa: „Ég verð nú að segja að maður finnur minna og minna fyrir þessu. Þetta var á­berandi þegar glæpa­sagan var að byrja hér á landi. En annað­hvort er að draga úr þessari um­ræðu eða að fólk þorir ekki að segja það upp í opið geðið á okkur. En ég held ég samt að það sé orðinn meiri skilningur á því að þetta er bók­mennta­grein sem bara eins og aðrar greinar á fullan rétt á sér og heldur ís­lenskum bók­menntum sannar­lega á lofti er­lendis til jafns við aðrar bók­mennta­greinar.“

Ragnar: „Á er­lendum bók­mennta­há­tíðum eins og til dæmis í Frakk­landi þá hittir maður les­endur sem hafa hrein­lega á­huga á ís­lenskum bókum. Þeir eru að lesa okkur Yrsu og Arnald, Auði Övu og Jón Kalman, svo ein­hverjir höfundar séu nefndir, og líta á þetta allt ein­fald­lega sem ís­lenskar bók­menntir.“

Dregin inn í pólitískar deilur

Rit­höfundurinn Sjón átti upp­haf­lega að taka þátt í Iceland Noir en sagði sig frá há­tíðinni á þeim grund­velli að Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra væri gestur há­tíðarinnar og vísaði þar til stefnu ríkis­stjórnarinnar í málum flótta­fólks. Katrín sagði sig sjálf frá þátt­töku í há­tíðinni skömmu síðar.

„Þetta reyndist okkur mjög sárt,“ segja Yrsa og Ragnar og í­treka að há­tíðin sé unnin í sjálf­boða­vinnu og hafi tekið langan tíma í undir­búningi.

„Okkur fannst frekar ó­mak­legt að þjóð­þekktur rit­höfundur tæki þá á­kvörðun að draga okkur og allt það góða fólk sem hefur unnið að há­tíðinni með þessum hætti inn í pólitískar deilur. Nokkrir aðrir ís­lenskir lista­menn tóku svo í fram­haldinu undir og hvöttu jafn­vel aðra til að snið­ganga há­tíðina. Þetta er aug­ljós­lega ekki pólitísk sam­koma og Katrín var ein af rúm­lega sex­tíu höfundum sem boðið hafði verið á hana með margra mánaða fyrir­vara. Þessi upp­á­koma tók svo­lítið gleðina úr allri þeirri vinnu sem lögð hefur verið í há­tíðina og um tíma vorum við helst á því að kalla þetta gott og eftir­láta ein­hverjum öðrum að blása til bók­mennta­há­tíðar í svartasta skamm­deginu í fram­tíðinni. En svo gekk það yfir og við auð­vitað búin að jafna okkur.“

Okkur fannst frekar ó­mak­legt að þjóð­þekktur rit­höfundur tæki þá á­kvörðun að draga okkur og allt það góða fólk sem hefur unnið að há­tíðinni með þessum hætti inn í pólitískar deilur.

Dan Brown, einn frægasti spennu­sagna­höfundur heims, hefur boðað komu sína á Iceland Noir 2023.
Fréttablaðið/Eyþór

Dan Brown kemur á næsta ári

Ragnar og Yrsa eru strax byrjuð að leggja drög að næstu há­tíð og verða ekki nöfn af síðri endanum þar því Dan Brown, einn frægasti spennu­sagna­höfundur heims, hefur boðað komu sína auk kanadíska höfundarins Lou­ise Penny, sem skrifaði meðal annars bók með Hillary Clin­ton.

Þótt mikil að­sókn sé á Iceland Noir er enn hægt að nálgast miða á há­tíðina í ár.

Yrsa: „Há­tíðar­passarnir seldust upp í sumar en það eru enn til sölu miðar sem veita að­gang að öllum við­burðum í Frí­kirkjunni á Tix.is. Draumurinn er auð­vitað að hægt sé að hafa ó­keypis inn á há­tíðina, en þar sem opin­berir styrkir eru af skornum skammti þá stendur miða­salan undir meira og minna öllum kostnaðinum við að flytja inn þessa er­lendu höfunda.“