Völundur Snær Völundar­son mat­reiðslu­maður segir fátt betra en að komast í köld böð. Hann hefur oftast stólað á sund­laugarnar til að nálgast kalda pottana en þær hafa verið lokaðar um lengri tíma vegna sam­komu­tak­markana. Völundur deyr þó ekki ráða­laus; í dag fór hann á­samt vinum sínum í hópnumIce Tri­be Iceland að ísi­lögðu Hafra­vatni og kafaði undir ísnum milli vaka.

„Ég hef verið í sjósundi og stundað köld böð eins og ég get. Nú eru sund­laugarnar búnar að vera lokaðar í lengri tíma og mér bauðst tæki­færi til að fara með þessum hópi í dag. Þetta var bara gott tæki­færi til að stíga að­eins út fyrir þæginda­rammann og prófa eitt­hvað nýtt,“ segir Völundur í sam­tali við Frétta­blaðið.

Völundur Snær Völundar­son matreiðslumeistari. Hann hefur lengi stundað sjósund og köld böð.
Mynd/Aðsend

Hópurinn Ice Tri­be Iceland hóf að stunda köfun undir ís í fyrra. Völundur á marga vini í hópnum og hefur lengi ætlað sér að prófa sportið enda vanur kafari. Hann hefur til að mynda stundað hella­köfun í Karabíska hafinu og stundað frjálsa köfun. Hann segist því ekki hafa verið að fara neitt rosa­lega langt út fyrir þæginda­rammann en viður­kennir þó að hafa fundið fyrir smá ó­þægindum í maganum þegar hann var kominn ofan í fyrstu vökina og gerði sig til­búinn til að kafa undir þykkt ís­lagið.

My first dive under ice was today. I was more concerned about the dive than the cold. It all worked out well & I will do it again. It was a great day John & the mad ice tribe Algarum Organic & Ocean Umami Salt

Posted by Völundur Snaer Völundarson on Sunday, 22 November 2020

Ekkert mál eftir fyrstu vökina

„Maður fékk smá ó­þægindi í magann yfir köfuninni en um leið og maður var búinn að kafa eina vök þá var þetta bara ekkert mál í rauninni,“ segir hann. „Þetta er auð­vitað gert eins öruggt og hægt er. Það er spotti utan um mittið á þér og það er alltaf manneskja á hinum endanum sem getur dregið mann til baka ef eitt­hvað kemur upp á. Svo er reynt að hafa ekki mikið lengra á milli vaka en fjóra metra.“

Hann segir þó að tími í kalda vatninu sé aðal­at­riðið frekar en adrena­línið við að kafa undir þykku ís­lagi að eina opinu. „Menn þurfa ekkert endi­lega að kafa á milli vaka frekar en þeir vilja. Að vera í kalda vatninu er gott fyrir líkama og sál. Það er númer eitt, tvö og þrjú.“

„Mig langaði líka að prófa þetta því ég var alltaf vanur að fara í heita pottinn beint á eftir sjó­böðunum eða í sundi. Mig langaði líka að prófa þetta án þess að komast beint í hita á eftir heldur bara að klæða sig í fötin og halda á­fram. Það var bara ekkert mál.“

Ætlar klárlega aftur

Hann segist hafa skemmt sér afar vel í dag og ætlar klár­lega aftur með hópnum á næstunni. Hópurinn hefur aðal­lega stundað æfingarnar á Hafra­vatni og í Sel­tjörn.