„Ég fór inn í þetta á forsendum forvitninnar og rauði þráðurinn í þáttunum er þetta samspil líkamans og tilfinningalífsins sem kemur okkur öllum við,“ segir Margrét Stefánsdóttir um þáttaröð sína Heil og sæl? sem kom í heilu lagi í Sjónvarp Símans í gær.

Þættirnir eru sjö talsins og í þeim kafar Margrét ofan í andlega og líkamlega heilsu og lífsstíl kvenna á öllum aldri með sérfræðingum á hverju sviði og leitast, eins og frekast er unnt, við að ná utan um allt æviskeiðið.

„Ég hef bæði fundið það á fólki í lífi mínu og á eigin skinni að ef við vinnum ekki úr andlegum erfiðleikum þá skilar það sér í líkamlegum einkennum,“ segir Margrét og bætir við að fyrir henni hafi verið lykilatriði að koma einhverju frá sér sem myndi gagnast kynsystrum hennar.

„Við erum allar í sömu súpunni. Ég hef upplifað þetta sjálf sem íslensk kona og þriggja barna móðir sem lifir og hrærist í amstri dagsins eins við gerum allar. Við þurfum að huga að andlegu hliðinni okkar til þess að „funkera“ í lífinu. Öll göngum við í gegnum einhver áföll í lífinu. Misstór en ef við vinnum ekki úr þeim eftir að hafa fengið nokkur bönk í bakið sem viðvörun, þá mun það koma út í líkamlegum einkennum.“

Andlegi grundvöllurinn

Margrét segir kveikjuna að þáttunum í raun hafa komið eftir að hún sat fyrirlestur hjá Ólöfu Guðnýju Geirsdóttur, dósent í næringarfræði við Háskóla Íslands. „Hún spyr salinn, sem var aðallega skipaður konum, hvenær á lífsleiðinni næring sé manneskjunni einna mikilvægust. Flestar svöruðu með fyrstu vikunum eða árunum sem börn. Rétta svarið var í móðurkviði,“ upplýsir Margrét.

„Ólöf Guðný segir okkur að rannsóknir sýni að fæðingarþyngd barns og hvernig barnshafandi mæður næra börn sín og sjálfar sig á meðgöngu geti skipt sköpum fyrir heilsuna í framtíð barnsins. Fyrsti þátturinn fjallar um þetta meðal annars sem og tengsl okkar við þá manneskju sem við veljum sem lífsförunaut.“

Margrét bendir einnig á að þörfin fyrir að miðla upplýsingum hafi alltaf blundað í henni. „Ætli ég sé ekki smá „sökker“ fyrir því,“ segir hún og hlær.

„Ég starfaði sem fréttakona á Stöð 2 í nokkur ár frá 26 ára aldri og eftir það sem upplýsingafulltrúi Símans og markaðsstjóri Bláa Lónsins. Þannig að það má segja að ég brenni fyrir að koma upplýsingum skýrt frá mér og á mannamáli og fékk til liðs við mig sérvalda sérfræðinga með þetta að markmiði,“ segir Margrét sem reynir öðrum þræði að svara áleitnum og útbreiddum spurningum í þáttunum.

„Mér finnst ég oft rekast á fréttir um alls konar tölfræði um hvernig við eigum að haga okkur heilsusamlega til þess að líða sem best í eigin skinni.“

Heilsan er ein heild

Margrét segir í þessu samhengi að rannsóknir bendi til þess að andleg og líkamleg heilsa sé samofin heild og að með heilbrigðisvísindunum í seinni tíð hafi þetta orðið viðurkenndara.

„Konur eru í fókus þessarar þáttaraðar vegna þess að við göngum með börnin og þannig var hægt að þrengja aðeins þessa stóru málaflokka um heilsu og hamingju.

„Ég fæ hátt í þrjátíu konur til mín og allar sögðu já einum rómi þegar ég hafði samband til að biðja þær um að taka þátt,“ segir Margrét og fagnar því hversu margir láti þessi málefni sig varða.