Hljómsveitirnar Mammút og Kælan mikla halda sína fyrstu sameiginlegu tónleika í Gamla bíói í september og munu þar hvor um sig flytja eigin lög en leyfa þó tónlist sinni líka að flæða á milli í einhvers konar blóðblöndun á því sem Ása Dýradóttir, bassaleikari Mammút, segir að verði „svaka gigg“.

Hljómsveitirnar Kælan mikla og Mammút eiga stóra og trausta aðdáendahópa sem fá færri tækifæri en þeir vildu til þess að sjá þær á sviði. Sameiginlegir stórtónleikar þeirra í Gamla bíói í næsta mánuði mega því teljast til stórtíðinda, ekki síst þar sem þeir verða þeir fyrstu sem böndin halda saman.

Mammút hefur fyrir margt löngu heillað áheyrendur langt út fyrir landsteinanna með dáleiðandi tónlist sinni og nú gefst tækifæri til þess að sjá sveitina í heimavelli í Reykjavík í fyrsta sinn í langan tíma.
Mynd/Saga Sig

„Við erum búin að vera samferða Kælunni miklu rosalega lengi bara svona á senunni og einhvern veginn í „væbi“ en við höfum aldrei spilað saman án þess að það sé óvart,“ segir Ása Dýradóttir, bassaleikari Mammút, sem hikar ekki við að lýsa fyrirhuguðum tónleikum sem „svaka giggi“.

„Þegar við höfum spilað saman hefur það alltaf verið eitthvað tilfallandi á tónlistarhátíðum eða einhverjum kvöldum og það er búið að blunda í okkur svolítið lengi að leggja okkur bara svona saman eins og heild.“

Sundur og saman

Ása bætir við að böndin hafi alltaf séð fyrir sér einhvers konar hausttónleika og nú hafi þau bara ákveðið að kýla á þetta með tónleikum sem verða í Gamla bíói að kvöldi föstudagsins 16. september en miðasala hófst á Tix.is í gær.

Lagt er upp með að Kælan og Mammút muni spila það helsta frá ferlum hvorrar sveitar um sig í „kraftmikilli, þungri og ærandi veislu fyrir augu og eyru gesta“, en þar fyrir utan segir Ása að tónlist þeirra muni leka eitthvað á milli. „Við ætlum að vinna aðeins með þetta sem svona heildarpakka í staðinn fyrir tvö aðskilin sett.

Kælan Mikla gaf út sína fjórðu plötu, Undir Köldum Norðurljósum á seinasta ári og fjallar hún að mestu um þjóðsögur og ævintýri og dregur hljómsveitina enn dýpra inn í heim galdra og dulúðar.
Mynd/aðsend

Við erum samt auðvitað að fara að spila sitthvort settið en ætlum aðeins að láta hlutina blæða saman. Og svo verða tvö alveg geeeeggjuð upphitunarbönd sem við ætlum ekki að tilkynna alveg strax. Það er leyndó. Þetta verður algjör veisla.“

Skemmtilega kaldhæðnislegt

Svo skemmtilega vill til, ef svo má að orði komast, að tónleikana ber upp kvöldið fyrir Rokk í Reykjavík í Kaplakrika sem hefur fengið talsverða gagnrýni fyrir skort á rokktónlistarkonum.

Ása segir þetta algera tilviljun og að þau séu alls ekki að stilla sér upp í „eitthvað konur á móti körlum“. Það sé víðs fjarri. „En þetta er líka svolítið kaldhæðnislegt þegar verið er að tala um skort á kvenkyns rokkurum og það verður enginn skortur á þeim í Gamla bíói þessa helgina. Nóg af því,“ segir Ása og lætur að því liggja að leynigestirnir dularfullu séu einnig skipaðir konum.

Tími til kominn að negla

Ása segir töluverða spennu vera að byggjast upp fyrir tónleikunum hjá henni og félögum hennar í Mammút, þeim Katrínu Mogensen, Alexöndru Baldursdóttur, Arnari Péturssyni og Valgeiri Skorra Vernharðssyni.

„Við gáfum út fimmtu plötuna okkar, Ride The Fire, í Covid og náðum ekki, eftir alveg síendurteknar tilraunir, að halda útgáfutónleika. Við vorum alveg búin að bóka Gamla bíó eitthvað 80 sinnum og þá var bara alltaf eitthvað nýtt komið upp og maður ákvað bara að bíða þangað til þetta væri búið.

Og núna langar okkur bara að spila svona neglugigg. Þetta eru ekki útgáfutónleikar þótt við tökum lög af nýju plötunni en okkur langar að taka bara svona „best of“ neglur. Það eru allir orðnir svo spilaþyrstir og maður vill bara flagga öllu og bara öskra og hafa gaman.“

Hún bætir síðan við að þetta vilji þau einmitt gera með fólki eins og Laufeyju Soffíu, Margréti Rósu og Sólveigu Matthildi í Kælunni miklu. „Þær eru alveg frábærar og eru búnar að vera að túra ógeðslega mikið í Evrópu. Eru alveg ógeðslega sjóaðar og geggjaðar. Þannig að þetta verður algert stuð.“