Margrét hefur marga fjöruna sopið þegar kemur að veislustjórn en hún segir að helsti munurinn á veislustjórn á þorrablótum og til dæmis í brúðkaupum sé að á þorrablótum sé hún gjarnan beðin um að búa til dansatriði með þorrablótsnefndinni eða vera með í leiknum sketsum og þvíumlíkt.

„Annars er ég ég mest ráðin því að fólk vill magadans, vill twerk-kennslu, vill sirkusatriði og búrlesk. Veislustjórnin á þorrablótum snýst mikið um að raða skemmtiatriðum, smala fólki í salinn og taka skvaldur niður. Oftast er mikið af heimatilbúnum skemmtiatriðum og ofan á það er maturinn hlaðborð en ekki sitjandi borðhald eins og í hinum partíunum. Margir eru kannski ekki að borða matinn – eða borða lítið – og eru meira á barnum þannig að þetta er ákveðin fókusstjórn,“ útskýrir Margrét sem segist sjálf ekki borða þorramat.

„Ég ber það fyrir mig að vera í vinnunni og fara þess vegna ekki á hlaðborðið, en þessi matur fer illa í mig og ég þarf að vera góð í maganum ef ég ætla að dansa magadans og gleypa sverð,“ segir hún og talinu víkur aftur að veislustjórn.

„Lykillinn þegar skemmtiatriðum er raðað er að hugsa út frá fjölbreytni, en líka að passa upp á að ef atriðin eru þess eðlis að fólk þurfi að heyra mikið að hafa þau snemma,“ bætir hún við.

Aðspurð að því hvað þurfi til að vera góður veislustjóri segir hún lógíska og leiðinlega svarið vera samskipti, við eldhús, við yfirþjón og við önnur skemmtiatriði.

„Almenn hlustun og vita hvenær fólk vill bara tala saman og fara á trúnó. Í veislu skiptir mestu máli með hverjum þú lendir á borði. Tala við fólkið, treysta þeim sem halda partíið en koma með þína reynslu að því borði. En skemmtilega svarið er að það skiptir máli að þér þyki gaman í vinnunni því þannig geturðu gefið af þér. Það er svo gaman þegar það er gaman,“ segir hún.

Nýorðin ófrísk og þoldi ekki lyktina af þorramatnum

Þorrablótin ganga ekki alltaf snurðulaust fyrir sig og Margrét á nokkrar minningar frá slíkum blótum.

„Í þorravertíðinni 2019 var ég nýorðin ófrísk, vissi það ekki sjálf og var sérstaklega lyktnæm og átti erfitt með að kynna það sem var á boðstólum. Á þorrablóti á Kjalarnesi var ekki hægt að kveikja ljósin á sviðinu svo nefndin reddaði vinnukastara sem Brynhildur vinkona mín og aðstoðardrottning hélt á. Fólk reddar sér,“ segir hún.

„Það misheppnaðasta er alltaf tengt ölvun einstaklinga sem eiga erfitt með að hemja sig, sérstaklega þegar svona matur er borinn á borð sem kannski ekki allir fíla það vel að þeir borði sig sadda – sem getur leitt af sér leiðinlega ölvun og áreitni og almenn leiðindi. En tölum um eitthvað skemmtilegra,“ bætir hún við og rifjar upp skemmtilegustu blótin sem hún hefur unnið á.

„Þau hafa mörg verið skemmtileg, en þetta á Kjalarnesinu stendur upp úr. Bæði var félagsheimilið æðislegt og hentaði partíinu vel, nefndin var draumur að vinna með og þetta var svona „best of both worlds“ sveitaþorrastemning en stutt fyrir mig að aka heim.“

Aðspurð hvort þorrablót séu ólík eftir því hvar á landinu þau eru haldin svarar hún að hún hafi verið veislustjóri að minnsta kosti á einu þorrablóti í hverjum landshluta, en það sé of lítið til að gera almennilegar samanburðarrannsóknir á milli þeirra.

„Ég get þó sagt að hinn íslenski kabarettandi svífur yfir vötnum utan höfuðborgarsvæðisins. Því nær sem þetta er höfuðborginni, þeim mun meiri líkur eru á að öll skemmtiatriðin séu vídeó – en því lengra sem þú ferð frá, því meira er um dansatriði, hæfileika, uppistand, spilað á skrýtna hluti og svoleiðis.“

Margrét og Lalli töframaður, sem gjarnan skemmtir með henni, eiga glímubúninga í stíl og sýna oft saman fimleika-glímuatriði. MYND/MUMMI LÚ

Glímubúningur heppilegur

Aðspurð hvernig veislustjóri á þorrablótum klæðist svarar hún: „Það kemur sér afar vel að eiga glímubúning til að veislustýra á þorrablótum. Búningurinn stendur alltaf fyrir sínu, og minnkar vesenið að velta fyrir sér í hverju kona á að vera á þorrablóti.“

Margrét segir að lokum að hún hafi ekki verið bókuð á nein þorrablót í ár en að nokkrar fyrirspurnir séu í loftinu.

„Ég held að núna séum við bara mjög æst í allt sem heitir að hitta fólk, þegar það má og samkvæmt reglum. Fyrirspurnirnar um þorrablótin í ár eru allar þannig að fólk segir: „Höldum það í febrúar, kannski með fjarfundarbúnaði, kannski í kjötheimum. Fólk er aðeins að bíða með að taka ákvarðanir.“