Kevin Federline, fyrr­verandi eigin­maður og barns­faðir Brit­n­ey Spears, er sagður styðja hana í bar­áttu sinni fyrir því að fá sjálf­ræðis­sviptingu hennar af­létt og að hún fái að stjórna sínu eigin lífi sjálf. Brit­n­ey opnaði sig í fyrsta skipti um málið í síðustu viku.

Lög­maður Federline, Mark Vincent, sagði við banda­ríska miðilinn En­terta­int­ment Tonight að Federline vilji það sem er best fyrir Brit­n­ey.

„Það skiptir ekki máli hversu já­kvæð á­hrif sjálf­ræðis­sviptingin hefur haft á hana ef að hún hefur haft hættu­leg á­hrif og skað­leg á­hrif á hug hennar. Þannig hann styður hana í að hafa besta um­hverfið fyrir hana að búa í og fyrir börnin hans að heim­sækja móður sína“ sagði Vincent.

Hann sagði enn fremur að Federline telji það best fyrir börnin að móðir þeirra sé á­nægð og heil­brigð.

Brit­n­ey og Kevin voru gift í þrjú ár og eiga tvo drengi saman sem eru núna 14 og 15 ára. Federline fór með for­sjá þeirra þar til í septem­ber 2019 þegar Brit­n­ey fékk 30 prósent for­sjá en hún er samt sögð sjá þá minna eftir breytinguna. Skilnaður þeirra var stað­festur árið 2007 en þau voru saman í um þrjú ár áður en Brit­n­ey sótti um skilnað.

Brit­n­ey baðst í síðustu viku lausnar frá fyrir­komu­laginu sem hún hefur lifað við síðustu tvo ára­tugina og sagði að hún hefði ekki vitað fyrr en nú að hún gæti það.

Greint er frá á CNBC.