Justin Roiland, höfundur Rick and Mor­ty þáttanna mun ekki lengur vinna að gerð þáttanna eftir að hafa verið kærður fyrir heimilis­of­beldi. Roiland tal­setti báða Rick og Mor­ty.

Greint var frá því í er­lendum miðlum fyrir nokkrum vikum að fyrr­verandi kærasta Roiland hefði kært hann fyrir of­beledi og fyrir blekkingar vegna at­vika sem áttu sér stað árið 2020. Sjálfur hefur Roiland sagst vera sak­laus vegna málsins.

Í til­kynningu frá lög­manni hans til fjöl­miðla segir að leikarinn búist við því að mála­ferlum verði lokið fljótt og örugg­lega. Roiland er höfundur teikni­mynda­þáttanna vin­sælu á­samt Dan Harmon.

Fram­leið­endur þáttanna Adult Swim gáfu frá sér yfir­lýsingu í gær þar sem þau sögðu að Roiland hefði verið látinn fara. Hann hefur hingað til verið at­kvæða­mikill í þáttunum og tal­sett tölu­verðan fjölda per­sóna, meðal annars aðal­per­sónurnar tvær, en Adult Swim segir að haldið verði á­fram með þættina.

Þættirnir fjalla um kol­bilaða vísinda­manninn Rick sem fer í ýmis súrsuð ævin­týri með barna­barni sínu Mor­ty. Þættirnir eru þeir vin­sælustu sem Adult Swim hefur fram­leitt en streymis­veitan pantaði 70 þætti til við­bótar árið 2018 sem myndi þýða að þættirnir verði í hið minnsta tíu seríur.