Justin Roiland, höfundur Rick and Morty þáttanna mun ekki lengur vinna að gerð þáttanna eftir að hafa verið kærður fyrir heimilisofbeldi. Roiland talsetti báða Rick og Morty.
Greint var frá því í erlendum miðlum fyrir nokkrum vikum að fyrrverandi kærasta Roiland hefði kært hann fyrir ofbeledi og fyrir blekkingar vegna atvika sem áttu sér stað árið 2020. Sjálfur hefur Roiland sagst vera saklaus vegna málsins.
Í tilkynningu frá lögmanni hans til fjölmiðla segir að leikarinn búist við því að málaferlum verði lokið fljótt og örugglega. Roiland er höfundur teiknimyndaþáttanna vinsælu ásamt Dan Harmon.
Framleiðendur þáttanna Adult Swim gáfu frá sér yfirlýsingu í gær þar sem þau sögðu að Roiland hefði verið látinn fara. Hann hefur hingað til verið atkvæðamikill í þáttunum og talsett töluverðan fjölda persóna, meðal annars aðalpersónurnar tvær, en Adult Swim segir að haldið verði áfram með þættina.
Þættirnir fjalla um kolbilaða vísindamanninn Rick sem fer í ýmis súrsuð ævintýri með barnabarni sínu Morty. Þættirnir eru þeir vinsælustu sem Adult Swim hefur framleitt en streymisveitan pantaði 70 þætti til viðbótar árið 2018 sem myndi þýða að þættirnir verði í hið minnsta tíu seríur.