Lög Úlfars Viktors Björnssonar í Söngvakeppninni, Betri Maður og Impossible, skiluðu sér síðar en önnur lög á streymisveituna Spotify vegna mannlegra mistaka. Úlfar greinir Eurovision aðdáendum frá þessu á Facebook hópnum Júróvisjón 2023.
Aðdáendur keppninnar höfðu vakið athygli á þessu á umræðuþræði um lögin sem birtust í fyrsta skiptið á netinu á laugardagskvöld. Eins og áður verða tvær undankeppnir þann 18. og 25. febrúar áður en aðalkeppnin fer fram þann 4. mars næstkomandi.
„Því miður fékk ég þær leiðinlegu fregnir eftir þáttinn á laugardaginn að eitthvað hafði klúðrast með file-ana mína sem gerði það að verkum að lögin mín skiluðu sér ekki inn á Spotify,“ skrifar Úlfar til Eurovision aðdáenda á Facebook.
„Eða eins og ég las hér að neðan þá var Impossible að spila þau. Frekar frústrerandi, en auðvitað mannleg mistök og bara áfram gakk. Ég vildi bara láta vita að þau eru nú loksins aðgengileg á Spotify og YouTube. Þetta ferli er búið að vera ofboðslega skemmtilegt og lærdómsríkt og ég get ekki BEÐIÐ eftir að fá að sýna ykkur lokaútkomuna á sviðinu 25. febrúar. Hrikalega langþráður draumur að rætast hjá fellow júrónölla!“