Blaða­menn sem fylgjast með Euro­vision keppninni í Rotter­dam 2021 eru margir hverjir farnir að huga að því að koma sér til Húsa­víkur á næsta ári - svona ef miðað er við við­brögð þeirra við fyrstu æfingu Daða og Gagna­magnsins á sviði.

Euro­vision keppnin fer fram með ó­hefð­bundnu sniði í ár og hafa flestir blaða­menn sætt sig við raf­rænan að­göngu­miða að há­tíðinni. Á vef­svæði blaða­manna, þar sem þeir fylgdust með fyrstu æfingu Daða og fé­laga, lýstu flestir yfir mikilli á­nægju með frammi­stöðu hópsins.

„Þú verður að taka mið af flugi til Húsa­víkur líka,“ segir breski út­varps­maðurinn Martin Pal­mer í um­ræðum blaða­manna, þar sem þeir ræða það á léttu nótunum hve dýrt það muni verða að ferðast til Ís­lands á næsta ári fyrir Júró­her­leg­heitin.

„Þeir hljóta að þurfa að hugsa um ferða­mennina,“ segir blaða­maðurinn Bernar­do Matias á léttu nótunum. „Kannski verða vina­leg verð í boði fyrir Euro­vision hópinn!“

Það voru hins vegar ekki allir já­kvæðir eftir fyrstu æfinguna hjá Daða og Gagna­magninu. „Þetta er ekki sigur­lag,“ segir Olof Hammar­berg.

Simon Falk er þó alls ekki sam­mála Hammar­berg og gengur lengra en kollegar sínir og full­yrðir að Euro­vision verði ein­fald­lega bara haldin á Húsa­vík á næsta ári.

„Fyrst mynd, svo að halda al­vöru keppnina....ís­lenska þjóðin veit ekki hverju þau eiga von á,“ skrifar belgíski þátta­stjórnandinn Jens Geerts. Blaða­maðurinn Martin Pal­mer segir hópinn minna sig á Pollapönk.