Júró með Nínu og Ingunni er glænýr þáttur á vef Fréttablaðsins, frettabladid.is og sjónvarpsstöðinni Hringbraut þar sem hitað er upp fyrir Eurovision 2022 sem fer fram í Torino í maí.

Nína Richter og Ingunn Lára kryfja lögin í keppninni og spjalla við Júró-stjörnur um gömlu slagarana. Juró-þáttur Fréttablaðsins fer svo alla leið til Torino til að skyggnast bak við tjöldin og gefa áhorfendum heima á Íslandi ítalska menningu beint í æð.

Sjáið stikluna hér fyrir neðan.

Hvaða frægi Júró-keppandi snýr aftur í ár? Hvaða landi er spáð í topp fimm sæti í fyrsta sinn í tvo áratugi? Hver sér ekki sólina fyrir Alexander Rybak? Hver laug að Ingunni um að hafa reddað henni boðsmiða í teiti með Måneskin? Við fáum svör við þessu öllu ásamt fleiru í þáttunum.

Fyrsti þáttur fer í loftið á miðvikudag, 13. apríl, og verður hægt að fylgjast með hér á vef Fréttablaðsins og Hringbraut en einnig á öllum helstu samfélagsmiðlum eins og Instagram, TikTok, Facebook og Twitter.

Elín, Beta og Sigga Eyþórsdætur munu keppa fyrir hönd Íslands með laginu Með hækkandi sól eftir Lovísu Elísabetu Sigrúnardóttur, sem er einnig þekkt undir listamannsnafninu Lay Low.

Sigga, Elín og Beta Eyþórsdætur.
Fréttablaðið/Valli