True North fékk klæðskerann Júlíu Helgadóttur til að sauma jakka frá grunni í heldur óvæntu verkefni. Hún komst síðar að því að jakkinn var leikbúningur í vísindaskáldsöguþáttunum Foundation, sem hún heldur mikið upp á.

Júlía Helgadóttir hefur um árabil getið sér gott orð sem klæðskeri og hefur meðal annars starfað fyrir Kormák og Skjöld.

Í nóvember fyrir tveimur árum síðan fékk hún óvænt saumaverkefni, tengt tökum hjá framleiðslufyrirtækinu True North. Mikil leynd hvíldi yfir verkefninu og Júlía komst ekki að því fyrr en síðar að um var að ræða tökur á vísindaskáldsöguþáttunum Foundation fyrir Apple TV.

Jakkinn góði nýtur sín vel í Foundation-þáttunum. Mynd/Apple TV

Út í óvissuna

„Þetta var rosa skemmtilegt, ég vissi náttúrulega ekkert hvað ég var að fara út í og svo kemur þetta í ljós síðar og það var gríðarlega óvænt,“ segir Júlía, en verkefnið tók einungis um það bil viku á meðan tökur stóðu yfir við Laugarvatn og Heklurætur.

„Þau voru mjög stutt hérna á Íslandi og skutu nokkrar senur hérna. Ég eyddi í raun bara tíma með búningahönnuðinum og þegar ég hafði einhvern aukatíma skellti ég þessu saman fyrir hann,“ segir Júlía, og á þar við jakkann sem hún saumaði frá grunni.

Þættirnir eru þeir stærstu sem komið hafa úr smiðju streymisveitunnar Apple TV og stórleikararnir Jared Jarris og Lee Pace eru þar í aðalhlutverkum.

Mikill Asimov-aðdáandi

Þættirnir byggja á bókum eftir þann mikla höfuðpáfa vísindaskáldskaparins, Isaacs Asimov, en Júlía er bæði mikill aðdáandi hans og bókanna um Foundation.

Söguþráður Foundation hverfist um þúsund ára sögu útlagadeildarinnar Foundation, sem áttar sig á því að eina leiðin til að bjarga Alheimsveldinu frá glötun er að bjóða því sjálfu birginn.

„Ég er gríðarlega mikill aðdáandi, meðal annars hinna þriggja róbótalögmála hans og þess hvernig hann í raun lagði grunninn að nútíma vísindaskáldskap,“ segir Júlía, og bætir við að það hafi því verið frekar magnað að fylgjast með eigin handverki birtast í þáttum sem byggja á skrifum eins af eftirlætisrithöfundum hennar.

„Ég er gríðarlega stolt af þessu,“ segir Júlía, sem er sjálf búin að sjá þrjá þætti úr seríunni. „Þetta lofar virkilega góðu.“

Jakkinn góði nýtur sín vel í Foundation þáttunum. Mynd/Apple TV