Salka Valsdóttir, tónlistarstjóri Rómeós og Júlíu, gefur hinni heittelskuðu Júlíu rödd með tónlist sinni fyrir fyrirhugaða uppfærslu Þjóðleikhússins á hinum sígilda harmleik Shakespeares. Fyrsta lagið úr sýningunni, HEITI KING, er komið á Spotify og allar helstu streymisveitur.

Laginu lýsir hún sem einhvers konar „skærbleikum svefnherbergisslagara“ en nafnið vísar til heits konungs. „Það heitir HEITI KING, eins og „hot“ kóngur,“ segir Salka og hlær.

„Í verkinu heyrist þetta bara stuttu eftir svalasenuna. Stuttu eftir fyrsta skiptið sem þau hittast og er eiginlega bara fyrsta skiptið í verkinu þar sem hún hefur einhverja von um að komast af þeim stað sem hún er föst á,“ segir Salka um Júlíu, Rómeó og forboðna ást þeirra.

Tónskáldið Salka og leikkonan Ebba Katrín köfuðu saman ofan í persónu Júlíu og unnu náið saman við gerð tónlistarinnar í Rómeó og Júlíu.
Mynd/Blair Alexander

„Allt þetta ferli er eiginlega búið að vera mjög magnað og mjög óvenjulegt hvernig leikstjórinn ákvað að nálgast tónlistina. Vegna þess að hann vildi hafa tvö tónskáld og að annað þeirra væri eiginlega bara að semja tónlist út frá persónu Júlíu og hitt út frá persónu Rómeós,“ segir Salka um línurnar sem leikstjórinn Þorleifur Örn Arnarsson lagði.

Rausið í Rómeó

„Það er mikil tónlist í þessu verki og hún fær rosalega mikið pláss og það er búið að vera sérstaklega spennandi að vera á Júlíuhliðinni. Allavegana fyrir mig vegna þess að í verkinu er miklu, miklu minni tíma eytt í hana og að hjálpa áhorfendunum að skilja hennar innri heim og víkka hana í rauninni sem persónu. Á meðan Rómeó fær alveg heilar fimm, sex blaðsíður til að rausa um sálarlíf sitt.

Þannig að það er í raun svo mikið rými utan handrits á sviðinu og áhugavert að þurfa að skálda, lesa milli línanna og reyna að setja sig í hennar spor. Víkka persónu hennar og gera bara að þrívíðum karakter. Og við höfum rosalega mikið náð að gera það með tónlist. Sem er geggjað spennandi,“ segir Salka sem vann tónlistina náið með Ebbu Katrínu Finnsdóttur sem leikur Júlíu.

Ytra ofurefli

Salka segir hluta af þessari spennu liggja í því að barátta Júlíu er allt öðruvísi en Rómeós. „Hann er svo mikið í slag við innri djöfla á meðan hennar slagur er meira við ytri aðstæður. Það er verið að þvinga hana í hjónaband. Bara búið að ætla henni eitt líf og það er að giftast fertugum manni, unga út börnum og eitthvað.

Vinkonurnar lögðu upp með að gefa hinni harmrænu Júlíu rödd með tónlistinni og svigrúm til þess að kýla á móti þrúgandi ytri aðstæðum.
Mynd/Blair Alexander

Þannig að hún þarf einhvern veginn að vera að berjast á móti. Berjast, ólíkt honum, við ytri öfl. Það er svona undirtónninn í tónlistinni sem við höfum gert fyrir hana. Einhver ákveðin mótstaða. Einhver agressjón eða styrkur sem við erum að reyna að búa til,“ segir Salka og bendir á að lagið HEITUR KING sé löðrandi í einhvers konar barnslegu hrekkleysi.

„En samt kraumar líka smá plott undir niðri. Eins og hún sé kannski að plotta eitthvað. Þetta er svona algjört unglingsstelpu útrásarpopp- dæmi,“ segir Salka og hlær.

Aðferðir Reykjavíkurdætra

Salka segist aðspurð ekki aðeins hafa leitað að svigrúminu til þess að efla persónu Júlíu milli línanna hjá Shakespeare þar sem þær Ebba hafi ekki síður komið með eigin reynslu að borðinu.

„Við Ebba Katrín höfum unnið þetta alveg mjög mikið saman og langmest setið tvær og talað stanslaust um þessa persónu og auðvitað bara okkar baráttur og hvernig það spilar inn í þetta,“ segir Salka og bætir við að hún hafi náð sterkri tengingu sem ein Reykjavíkurdætra.

„Ég er náttúrlega úr Reykjavíkurdætrum og heimspeki hvernig þú getur notað tónlist sem valdeflandi tól eða frásagnarmiðil eða einhvers konar tæki til að kýla til baka.“ Salka segist þannig á ferli sínum hafa fengið gott veganesti í þennan heim Júlíu.

Rafmögnuð Júlía

„Ég er búin að reyna að vinna rosalega mikið út frá raftónlist eftir ungar konur og svoleiðis. Mig langaði að tilfinningin væri eins og Júlía hefði búið þessi lög til inni í svefnherberginu sínu. Bara á tölvuna sína. Þetta væru svona tólin hennar. Hún að reyna að stækka sig inni í litla rýminu sínu. Þenja sig út í veggina einhvern veginn og reyna að kýla til baka. Þannig að þetta er nokkuð aggresív en samt svona mjög stelpuleg popptónlist.“

Litagleði og harmræn eyðilegging mætast í uppfærslu Þjóðleikhússins á sígildum ástarharmleik Shakespeares.
Mynd/Blair Alexander

Salka og Ebba Katrín hafa þekkst um langt árabil en hafa aldrei unnið jafn náið saman og við gerð tónlistarinnar hennar Júlíu. „Við unnum saman í Borgarleikhúsinu, en ekki á þennan hátt, í frekar mörg ár þegar hún var dresser og ég hljóðmaður.

Þetta er fyrsta lagið sem hún gefur út. Hún er í raun ekki tónlistarkona en er samt alveg frábær tónlistarkona. Hún er ógeðslega klár og það er búið að vera sjúklega gaman að semja með henni,“ segir Salka og bætir við að Ebba Katrín hafi komið með ferska orku sem hafi minnt hana á upphaf Reykjavíkurdætra.

„Tónlist er svo skemmtileg og það er svo mikil barnsleg gleði yfir því að búa hana til en þegar maður er búinn að gera þetta svona lengi tekur maður öllu svo alvarlega. Og það var mjög gott fyrir mig að fá einhvern inn sem tekur þessu, þannig lagað, ekkert alvarlega.

Það var líka í anda Júlíu. Þetta er hennar tól til að losa um og ekkert endilega grafalvarlegt.“