„Ég er að leita að veggjum!“ segir myndlistarmaðurinn Juan sem hefur hefur slegið í gegn með skemmtilegum götulistaverkum sínum sem hann sýnir meðal annars á Instagram. Þekktasta verk hans hingað til er líklega Super Mario-grindverkið í Vesturbænum sem hefur vakið mikla athygli og ánægju á Melunum.

„Ég mála gjarnan eftir óskum og fer í gegnum ákveðið hugmyndaferli með eigendum veggjanna en stundum finnst mér gaman að sleppa því,“ segir Juan sem hefur birt óskir um ábendingar um veggi sem þarfnast andlitslyftingar í íbúa­hópum allt frá Breiðholti og vestur í bæ.

Tilraunir á steinsteypu

„Mér finnst gaman að gera það af og til vegna þess að hitt ferlið er töluvert flóknara og hægara. Þess vegna þarf ég á því að halda að geta sleppt fram af mér beislinu og geta bara staðið fyrir framan vegginn með engin plön. Finna litina sjálfur og sjá hvað gerist. Þegar ég vinn lengi eftir óskum annarra finnst mér ég missa tengslin við listamanninn í sjálfum mér,“ útskýrir Juan.

Hann segist jafnan reyna að vinna í þremur til fjórum veggjum samtímis. „Þar sem ég get bara gengið að og prófað eitthvað nýtt. Þetta eru í raun mínir eigin tilraunastofuveggir,“ segir Juan og hlær.

Juan segir fólk hafa verið duglegt að benda honum á hentuga veggi. Í íbúahópi Breiðholts hafa til dæmis nokkrir íbúar tekið myndir af alls kyns gráleitum og óspennandi veggjum og birt þær í athugasemdum við færslu Juans.

Almennur áhugi

„Það er fullt af fólki sem hefur bent mér á veggi og er sátt við að vita ekki hver útkoman verður,“ heldur Juan áfram og bætir við að þessi mikli áhugi hafi komið honum skemmtilega á óvart.

„En svo er reyndar alltaf fólk sem tekur myndir af veggjum að heiman og segir við mig „Hey! Þessi veggur er geggjaður! Málaðu hann!“ og ég spyr: „Ert þú eigandinn?“ og þá er svarið: „Ehh, nei, reyndar ekki,“ segir Juan og skellir upp úr.

Hann segir það algengara að fólk vilji hafa eitthvað um það að segja hvað fer á vegginn. „Sem ég skil mjög vel, ef þú ert að kaupa þér bíl þá viltu ákveðna hluti, að hann sé fjórhjóladrifinn og svo framvegis.“

Eins og tölvuleikur

Juan hefur sagst vilja gera Reykjavík að litríkari borg. „Það hefur gengið mjög vel! Þetta er eins og tölvuleikur. Ég fæ fleiri stig eftir því sem ég mála fleiri verk um borgina,“ segir Juan glettinn.

Hann segist vera að vinna í því að koma upp korti af listaverkunum sínum. „Ég hef nefnilega fengið nokkrar fyrirspurnir frá fólki sem vill að ég gangi með þeim um borgina og segi frá verkunum mínum.“

Hugmyndin kviknaði þegar Hafnarfjarðarbær birti kort af skúlptúrum sem Juan gerði fyrir bæinn. „Fólk er líka að spyrja mig út í þetta og mér finnst það mjög íslenskt, enda Íslendingar með fræg kort af öllu, hvort sem það er Geysir eða fossarnir frægu.“

Hægt er að fylgjast með Juan á Instagram síðunni hans.