Félagarnir Guðni Ágústsson og Óttar Guðmundsson geta ekki hætt að ganga um velli gamla þjóðþingsins við Almannagjá – og allra síst á albjartri Jónsmessunótt – en enn einu sinni leggja þeir í hann í kvöld undir kliðmjúkum fjöldasöng Karlakórs Kjalnesinga og að þessu sinni er umræðuefnið annar tveggja mannanna sem hvílir á bökkum Öxarár, þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson sem litaði nítjándu öldina svo skærum litum að enn er þjóðin með glýju í augunum.

„Hann er líklega umtalaðasti Íslendingurinn fyrr og síðar, eða því sem næst,“ segir Óttar, sem er búinn að taka fram skóna og er til alls líklegur á pöllum gamla þingheimsins í kvöld, en gangan byrjar, vel að merkja, klukkan 20.00 á planinu ofan Almannagjár.

Síblankur náttúrufræðingurinn

Hann ætlar að einbeita sér að helgimyndinni sem slegið hefur verið upp af Jónasi og spyrja sig og aðra nærstadda hvort hún standist.

„Stóra spurningin er auðvitað hvort þessi helgimynd sé raunsönn – og ég held nú að svo sé ekki,“ segir Óttar og heldur áfram, býsna íbygginn: „Það er raunar með algerum ólíkindum að þessi síblanki náttúrufræðingur skuli skreyta tíuþúsundkallinn, verðmætasta peningaseðil landsmanna,“ segir Óttar og er við það að skella upp úr. Jónas hafi ekki átt bót fyrir boruna á sér – og svo hafi verið alla tíð, en samt sem áður sé honum hampað með þessum hætti, sem hljóti að teljast öfugmæli.

„Svo er hann grafinn upp í dönskum kirkjugarði eins og um einhver dýrlingsbein hafi verið að ræða,“ heldur geðlæknirinn áfram og hnussar svo til hæfilega, en allt megi þetta heita á skjön við brösótta ævi Öxndælingsins sem fæddist við dagsbrún nítjándu aldar og náði aðeins 37 ára aldri.

„Á bak við þessa mynd, sem er okkur svo kær að við viljum helst ekki sjá annað, er auðvitað breyskur maður,“ bætir Óttar við og dregur upp sína mynd af þjóðskáldinu. „Ég held að Jónas hafi verið afskaplega óhamingjusamur maður alla sína tíð, nema ef vera skyldi árin eftir menntaskólatíð hans þegar hann varð ástfanginn í fyrsta og eina skiptið á ævi sinni.“

Guðni Ágústsson.

Drykkfelldur kvíðasjúklingur

Og við Óttari blasir döpur mynd. „Hann var drykkfelldur kvíðasjúklingur sem glímdi við þunglyndi, en þess utan var hann ómannblendinn og óöruggur með sjálfan sig, fyrir nú utan það augljósa að hann var hringtrúlofaður dauðanum eins og títt var um skáld á hans reki. Hann trúði því beinlínis að hann myndi ekki lifa lengi.“

Og Óttar er ekki á því að fótbeinsbrot í stigagarmi í kóngsins Kaupmannahöfn hafi verið dauðasök skáldsins. „Ég held hann hafi dáið úr lungnabólgu og brjósthimnubólgu sem hafi sáð sér upp í heila,“ segir Óttar, en vel megi vera að hann hafi dottið í stiga sakir þess hversu hann hafi verið máttfarinn undir það síðasta. „En stigabeinbrotið er bara enn ein helgimyndin, ef út í það er farið, þegar hitt er líklegra að lungun hafi bara gefið sig.“