Leikhúsgagnrýnandinn Jón Viðar Jónsson hefur horft á sinn síðasta þátt af Verbúðinni. Þetta tilkynnti hann á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi eftir að fimmti þátturinn í seríunni var sýndur. Jón Viðar segir steininn hafa tekið úr í lokaatriði þáttarins í gærkvöldi.
„Hafi einhvern tímann verið heil brú í þessari Verbúð þá er hún farin lönd og leið eftir þennan fimmta þátt sem sýndur var í kvöld. Hvað þarna er að? Jú, það vantar bara alla sálfræðilega undirbyggingu í aðalpersónurnar og alla samfellu og heildarsýn í plottið svo að atriði detta dauð niður slag í slag,“ segir hann og heldur áfram:
„Til að halda áhorfendum við efnið kunna höfundar þá engin ráð önnur en að búa til óvæntar uppákomur sem gerast einhvern veginn upp úr þurru og hafa jafnvel engar afleiðingar: slys af öllu mögulegu tagi og núna síðast sjónvarpsslys.“
Jón Viðar kvað upp dóm í síðustu viku eftir fjórða þáttinn og var hann ekkert sérstaklega upprifinn. Lýsti hann þáttunum sem „eintómri sápu“ og gagnrýndi þá verið stirð og hjákátleg samtöl. Hann ákvað þó að gefa þáttunum áfram tækifæri en lætur nú staðar numið.
Í færslu á Facebook-síðu sinni segir hann að engin aðalpersóna veki sérstakan áhuga. Hann hrósar þó leikurum sem fara með minni hlutverk í þáttunum.
„Ég nefndi nokkra hér í færslu um daginn og get bætt við: Benni Erlings var kostulegur sem Denni Hermanns, Hinrik Ólafsson vakti líka athygli, leikari sem mætti sjást oftar. Ég heyri sumsstaðar að fólk vill gefa þeim Vesturporturum prik fyrir þarfa ádeilu á siðlausa pólitík og lýsingu á tíðaranda, ég skil svo sem það sjónarmið, en allt slíkt er til lítils ef ekki er byggt á öðru en klisjum og reyfaratöktum; ef það slær hvergi neitt lifandi hjarta í dramanu.“
Jón Viðar endar færsluna svo á að tala um lokaatriði þáttarins í gærkvöldi sem var býsna fjörlegt – og skemmtilegt að margra mati
„Steininn tók svo úr í lokaatriði þáttarins, sem átti að sýna sjónvarpsþátt með Hemma Gunn; ég hef hreinlega ekki geð í mér til að fara nánar út í það sem þar var boðið upp á, svo ótrúverðugt, ósmekklegt og yfirgengilegt sem það var. Þið ráðið auðvitað hvað þið gerið, ágætu FB-vinir, en ég er hættur, enda nóg framboð af miklu betri seríum bæði á RÚV-vefnum og Netflix, kjósi maður að eyða tíma sínum í hám!“