Leik­hús­gagn­rýnandinn Jón Viðar Jóns­son hefur horft á sinn síðasta þátt af Ver­búðinni. Þetta til­kynnti hann á Face­book-síðu sinni í gær­kvöldi eftir að fimmti þátturinn í seríunni var sýndur. Jón Viðar segir steininn hafa tekið úr í loka­at­riði þáttarins í gær­kvöldi.

„Hafi ein­hvern tímann verið heil brú í þessari Ver­búð þá er hún farin lönd og leið eftir þennan fimmta þátt sem sýndur var í kvöld. Hvað þarna er að? Jú, það vantar bara alla sál­fræði­lega undir­byggingu í aðal­per­sónurnar og alla sam­fellu og heildar­sýn í plottið svo að at­riði detta dauð niður slag í slag,“ segir hann og heldur á­fram:

„Til að halda á­horf­endum við efnið kunna höfundar þá engin ráð önnur en að búa til ó­væntar upp­á­komur sem gerast ein­hvern veginn upp úr þurru og hafa jafn­vel engar af­leiðingar: slys af öllu mögu­legu tagi og núna síðast sjón­varps­slys.“

Jón Viðar kvað upp dóm í síðustu viku eftir fjórða þáttinn og var hann ekkert sér­stak­lega upp­rifinn. Lýsti hann þáttunum sem „ein­tómri sápu“ og gagn­rýndi þá verið stirð og hjá­kát­leg sam­töl. Hann á­kvað þó að gefa þáttunum á­fram tæki­færi en lætur nú staðar numið.

Í færslu á Face­book-síðu sinni segir hann að engin aðal­per­sóna veki sér­stakan á­huga. Hann hrósar þó leikurum sem fara með minni hlut­verk í þáttunum.

„Ég nefndi nokkra hér í færslu um daginn og get bætt við: Benni Erlings var kostu­legur sem Denni Her­manns, Hin­rik Ólafs­son vakti líka at­hygli, leikari sem mætti sjást oftar. Ég heyri sums­staðar að fólk vill gefa þeim Vestur­porturum prik fyrir þarfa á­deilu á sið­lausa pólitík og lýsingu á tíðar­anda, ég skil svo sem það sjónar­mið, en allt slíkt er til lítils ef ekki er byggt á öðru en klisjum og reyfara­töktum; ef það slær hvergi neitt lifandi hjarta í dramanu.“

Jón Viðar endar færsluna svo á að tala um loka­at­riði þáttarins í gær­kvöldi sem var býsna fjör­legt – og skemmti­legt að margra mati

„Steininn tók svo úr í loka­at­riði þáttarins, sem átti að sýna sjón­varps­þátt með Hemma Gunn; ég hef hrein­lega ekki geð í mér til að fara nánar út í það sem þar var boðið upp á, svo ó­trú­verðugt, ó­smekk­legt og yfir­gengi­legt sem það var. Þið ráðið auð­vitað hvað þið gerið, á­gætu FB-vinir, en ég er hættur, enda nóg fram­boð af miklu betri seríum bæði á RÚV-vefnum og Net­flix, kjósi maður að eyða tíma sínum í hám!“