„Við ætlum að endurtaka leikinn frá því í fyrra þegar Bríet steig á svið, segir Helga Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri 1881 velgjörðarfélags, um góðgerðartónleikana Gefðu fimmu sem eru samvinnuverkefni félagsins, Sky Lagoon og Tix.

„Í ár njótum við liðsinnis tónlistarmannanna Jóns Jónssonar og Friðriks Dórs,“ heldur Helga áfram og bætir við að allir sem að tónleikunum koma gefi vinnu sína sem framlag til söfnunarinnar fyrir Mánaberg og önnur vistheimili Barnaverndar Reykjavíkur.

Helga Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri 1881.
Mynd/Aðsend

Tónleikarnir verða í Sky Lagoon þriðjudaginn 4. október og Helga hvetur þau sem hafa áhuga á að ná sér í miða á Tix.is fyrr en seinna því framboðið er takmarkað.

„Sky Lagoon opnar dyrnar fyrir tónleikagesti klukkan 19 þegar Dj Sóley tekur á móti gestum. Bræðurnir stíga á svið klukkan 20 og ætla að skapa ógleymanlega upplifun,“ segir Helga.

„Það er mikilvægt fyrir okkur að geta sagt frá því öfluga starfi sem fram fer á Mánabergi og okkur er heiður sýndur með þeim stuðningi sem góðgerðartónleikarnir í Sky Lagoon eru fyrir starfsemina,“ segir Katrín Helga Hallgrímsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur.

„Ágóðinn af tónleikunum verður nýttur til að kaupa ýmiss konar búnað sem öll börn og foreldrar þurfa í sínu daglega lífi, þannig að létta megi undir með börnum og foreldrum sem eru í þeirri erfiðu stöðu að þurfa aðstoð okkar.“

Katrín Helga Hallgrímsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur.

Katrín Helga segir fjölskyldu- og vistheimilið Mánaberg vera það allra öflugasta og eitt mikilvægasta úrræði Barnaverndar Reykjavíkur fyrir börn og fjölskyldur í miklum vanda. „Þar er öruggt skjól fyrir börn sem eiga ekki í önnur hús að venda.“ Hún bendir á að móttaka Mánabergs á foreldrum og börnum til dvalar í lengri og skemmri tíma sé ekki síður mikilvæg.

„Þar er unnið með tengsl foreldra og barna og foreldrar eru styrktir og efldir í uppeldishlutverki sínu til að þeir geti mætt þörfum sínum og barna sinna.

Á Mánabergi starfar öflugur hópur sérfræðinga sem sinnir börnum og foreldrum sem þar dvelja. Þegar börn og foreldrar eru komin heim aftur heldur stuðningurinn áfram með reglulegri eftirfylgd og stuðningi heima fyrir.“