Leikarinn og leik­skáldið Jón Hjartar­son hlýtur Bók­mennta­verð­laun Tómasar Guð­munds­sonar 2021 fyrir hand­rit sitt að ljóða­bókinni Troðningar. Bókin kemur út á vegum For­lagsins í dag. Dagur B. Eggerts­son, borgar­stjóri, veitti verð­launin við há­tíð­lega at­höfn í Höfða.

Borgar­stjóri sagði við at­höfnina að Jón væri vel að verð­laununum kominn, ekki væri langt síðan ljóðinu var spáð ó­tíma­bærum dauð­daga „en það hefur marg­sannað sig hversu ó­tíma­bær sá spá­dómur var, því gróskan í ljóð­listinni hefur sjaldan verið meiri en undan­farin ár“.

Jón sagði við verð­launa­af­hendinguna að hann hafi löngum dáð ís­lensku þjóð­skáldin sem og atóm­skáldin.

„Ég dái þá höfunda sem nú fást við ljóð. Og mér sýnist ís­lensk ljóða­gerð dafna býsna vel sem er gott. Ljóðið ratar til sinna og setur veru­leikann svo­lítið úr skorðum sem er hollt,“ segir hann.

Lék um 80 hlut­verk á ferlinum

Jón Jóhann Hjartar­son er fæddur árið 1942 á Hellis­sandi. Hann út­skrifaðist sem kennari frá Kennara­skóla Ís­lands 1965 og lauk leikara­prófi frá Leik­listar­skóla Leik­fé­lags Reykja­víkur 1968. Hann var fast­ráðinn leikari um margra ára skeið hjá Leik­fé­lagi Reykja­víkur og lék í kringum 80 hlut­verk á ferlinum. Jón lék einnig leikið með ýmsum leik­hópum, s.s. Grímu, Litla leik­fé­laginu, Litla leik­húsinu, auk þess sem hann lék í fjöl­mörgum kvik­myndum sem og sjón­varps- og út­varps­verkum.

Jón hefur samið fjölda leik­rita bæði fyrir börn og full­orðna, auk barna- og ung­linga­bóka. Fyrsta leik­rit hans, Af­mælis­boðið, er frá 1969. Hann hefur bæði leik­stýrt verkum sínum og annarra hjá at­vinnu­leik­húsum og á­huga­leik­hópum. Síðasta bók hans er ung­menna­bókin Auga í fjallinu sem kom út hjá Skruddu árið 2017.

Reykja­víkur­borg hefur veitt Bók­mennta­verð­laun Tómasar Guð­munds­sonar frá árinu 1994 og hafa þau verið veitt fyrir ljóða­hand­rit ein­göngu frá 2004. Reykja­vík bók­mennta­borg UNESCO hefur um­sjón með verð­laununum. Alls bárust 49 ó­birt ljóða­hand­rit í sam­keppnina í ár undir dul­nefni. Að­eins um­slagið með réttu nafni verð­launa­höfundar var opnað. Meðal höfunda sem áður hafa hlotið verð­launin eru Haukur Ingvars­son, Ragn­heiður Lárus­dóttir, Dagur Hjartar­son, Þór­dís Gísla­dóttir og Auður Ava Ólafs­dóttir.

Troðningar eftir Jón Hjartarson.
Kápa/Forlagið

Um­sögn dóm­nefndar

Í dóm­nefnd verð­launanna sátu Sif Sig­mars­dóttir, Guð­rún Sól­ey Gests­dóttir og Ey­þór Árna­son. Í um­sögn dóm­nefndar segir:

Troðningar eftir Jón Hjartar­son er kraft­mikið verk um hið ó­vænta í hinu aug­ljósa, fegurðina í hvers­dags­leikanum og mikil­feng­leika þess smáa. Í bókinni fer Jón um víðan völl. En hvort sem yrkis­efnið er náttúran, sagan eða sam­tíminn er sjónar­hornið á­vallt ó­vænt. Þekkt minni eru færð í nýjan búning. Kímnar hvunn­dags­myndir eru dregnar upp innan um vísanir í stór­skáldin. Hið hvers­dags­lega verður ljóð­rænt, hið há­fleyga hvers­dags­legt.

Í ljóðum sínum sýnir Jón fram á að í lífinu leynist marg­breyti­leikinn oft í því ein­falda. Þann mót­sagna­kennda sann­leika má heim­færa á verkið Troðninga. Í ein­földum myndum sem settar eru saman af hug­kvæmni, hlýju og kímni leynist svo miklu meira en virðist við fyrstu sýn.