Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri, greindist í gær með Covid-19. Hann segir frá því á Twitter-síðunni sinni að hann sé nú kominn í einangrun.

Hann segist ekki vera með hita en með hálsbólgu og að honum líði „soldið einsog ég hafi gleypt gamalt og blautt handklæði sem legið hafi á gólfi einhvern tíma.“

Fjölmargir senda honum góðar kveðjur í póstinum en einhverjir velta því fyrir sér hvort að hann hafi smitast á Leifsstöð en hann var ekki sáttur við örtröðina sem hafði myndast á vellinum fyrr í vikunni þegar hann kom heim erlendis frá.

„Það má alls ekki þjóð­há­tíð en þetta er í lagi? Engin smit­hætta hér,“ skrifaði Jón þá á Twitter og birti með mynd­band af þvögunni þar sem fólk sést standa þétt saman. „Svona erum við búin að standa í klukku­tíma. Það er engin röð eða regla heldur treðst fólk bara. Þetta er sturlun.“