Jón Gnarr undirbýr nú stofnun Gnarristan. Það er ekki land heldur hlaðvarp þar sem grínistinn hyggst ræða eigin hugðarefni við alls kyns fólk í samstarfi við Baldur Ragnarsson og félaga í Hljóðkirkjunni.

„Þetta er voða mikið svona nörda hjá mér,“ segir grínistinn góðkunni Jón Gnarr um undirbúning sinn að eigin hlaðvarpi sem mun bera heitið Gnarristan. Hann var einmitt í þann mund að fara að hitta fyrsta viðmælandann þegar Fréttablaðið náði af honum tali.

Gnarristan verður framleitt í samstarfi við Hljóðkirkjuna, hlaðvarpsstöð í eigu Skálmaldarbræðranna Baldurs og Snæbjörns Ragnarssona. Þeir hafa meðal annars gert einn vinsælasta hlaðvarpsþátt landsins, Drauga fortíðar, en það var einmitt í þeim þætti sem boltinn fór að rúlla hjá Jóni.

„Ég hafði verið með þetta lengi í maganum og svo kynntist ég Baldri þegar hann og Flosi Þorgeirsson fengu mig í Drauga fortíðar til að ræða Jóhannes Birkiland og þá svona fór ég eitthvað að ámálga þetta við hann Baldur og þetta er afleiðing þess.“

Baldur Ragnarsson verður Jóni til halds og trausts.
Mynd/aðsend

Jón viðurkennir að hugmyndin hafi í raun smellpassað inn í heim Hljóðkirkjunnar. Í Draugum fortíðar kryfja þeir Baldur og Flosi eitt málefni úr fortíðinni í hverjum þætti og Jón ætlar að feta svipaða braut. „Baldur ætlar að aðstoða mig við þetta og mig langar til þess að fjalla um ýmis hugðarefni mín í hverjum þætti,“ segir Jón.

„Stefnan er að taka fyrir eitt málefni í hverjum þætti og hafa ákveðið þema. Nálgast það svo út frá ólíkum hliðum,“ segir Jón sem bætir því við spurður að þetta verði líklega ekki mjög umdeild málefni.

„Þetta verður voða mikið innan vísinda, tækni og sögu. Mig langar að fá til mín góða gesti til að ræða um alls kyns sértæk mál,“ segir Jón sem segist hafa hugsað þetta lengi.

„Ég er svo oft að lesa eitthvað sem mér finnst vera áhugavert en er svo kannski ekkert sérstaklega aðgengilegt. Ég hef til dæmis verið að lesa safn af írskum álfasögum sem er eitt af þessu sem ég hef verið að skoða.“

Jón Gnarr þekkir hvern krók og kima í Gnarristan.
Fréttablaðið/AntonBrink

Jón segir klárt að þetta verði eitt af viðfangsefnum Gnarristan. „Ég fullyrði það að mig langar einhvern tímann til þess að gera þátt um álfa og álfatrú. Þá gæti ég til dæmis talað við einhvern þjóðfræðing sem hefur kynnt sér álfasögur. Þetta er meðal annars stefnan.“

Hann bætir því við að þetta verði um allt á milli himins og jarðar. „Ég hef áhuga á svo miklu þannig að þetta verður eitt og annað. Sumir þættirnir gætu jafnvel fjallað um einhverja sjónvarpsþætti sem er ákveðin ástríða sem ég hef og jafnvel viðtöl við eitthvert fólk sem kemur við sögu í þessum þáttum og svona.“

Fyrsti þáttur kemur út í febrúar og verða þættirnir áskriftarþættir þó að einhverjir verði aðgengilegir öllum. „Baldur er með tæknilegu atriðin á hreinu. En ég er byrjaður að vinna að þessu og er einmitt að fara að hitta viðmælanda hérna eftir örskamma,“ segir Jón fullur af eldmóði.

Merki þáttarins Gnarristan.
Mynd/Hljóðkirkjan