Fyrsta glæpa­saga Jóns, And­nauð, fjallar um lög­reglu­konuna Láru sem þarf að takast á við mál sem teygir anga sína vítt um ís­lenskt sam­fé­lag. Hljóð­bókin er lesin upp af Vig­dísi Hrefnu Páls­dóttur og Haraldi Ara Stefáns­syni.

Jón Atli segir að hann geri sér grein fyrir því að gríðar­lega sterk hefð sé fyrir glæpa­sögum á Norður­löndunum og segir að Ís­land sé þar engin undan­tekning.

„Maður er mögu­lega með mjög kröfu­harða les­endur. En það sem mér fannst mjög á­huga­vert við hljóð­bókar­formið er að þetta er fyrst og fremst eitt­hvað sem fólk hlustar á. Ég treysti mér kannski að­eins betur í það heldur en að fara að gefa út ein­hverja glæpa­sögu fyrir jólin,“ segir Jón en hann telur að við hljóð­bóka­gerð þurfi að hafa á­kveðna hluti í huga. „Það er kannski ein­hver að hlusta á þetta sem er að vaska upp og sá þarf að vita hver mælir,“ segir Jón og tekur fram að um­gjörð Stor­ytel hvað þetta varðar sé frá­bær.

„Þau hjá Stor­ytel eru með mjög gott teymi sem er of­boðs­lega með­vitað um þetta. Þannig færðu hina hefð­bundnu rit­stjórnar­vinnu en svo kemur þetta inn auka­lega og þá er verið að hugsa um hluti eins og hvaða tón­list á við hverju sinni og hver hentar í hvaða hlut­verk og þetta er eitt­hvað sem þau liggja yfir og skiptir máli.“

Reynsla úr sjón­varps­fram­leiðslu

Reynsla Jóns Atla kemur aðal­lega úr leik­húsi og hand­rita­vinnslu fyrir sjón­varp en hann hefur um ára­raðir starfað á þeim grund­velli.

„Það eru að verða ein­hver 10 ár síðan ég fór að vinna í sjón­varpsseríum og það geri ég enn þá en meira á er­lendum vett­vangi,“ segir Jón og bætir við: „Oftar en ekki eru þetta að­laganir á glæpa­sögum sem breyta á í sjón­varpsseríur svo að þannig datt ég inn í þetta.“

Jón Atli segir að vinna hans við glæpa­seríur hafi gefið honum reynslu sem hjálpaði við skrifin.

„Maður lærir hand­verkin sem þurfa að vera á tæru. Mikið af þessu er sögu­þráður og per­sónur. En bæði frá þessu og leik­húsinu þá hafði ég það bak­land að geta skrifað sam­töl og skapa karaktera. Svo það var ekki eins og ég kæmi alveg ó­snortinn að þessu,“ segir Jón Atli, sem úti­lokar ekki að verkið gæti verið kvik­myndað í fram­tíðinni.

„Já, já, ég held að þar sem ég hef verið svo lengi að vinna með mynd­rænan texta svo jú, það yrði ef­laust frekar auð­velt að kvik­mynda þetta,“ segir Jón, sem segir að glæpa­sagan sem form bjóði upp á marg­vís­leg tæki­færi til að varpa ljósi á mis­munandi þætti í sam­fé­laginu.

„Það eru oft margar sam­fé­lags­legar hug­myndir, á­kveðin norm, sem er þægi­legt að koma á fram­færi í ein­hverju eins og glæpa­sögu. Svo er önnur krafa, sem ég þekki vel eftir öll þessi ár þar sem ég var að vinna í alls konar hlut­verkum í hand­riti og þróun í sjón­varpsseríum, þá er þetta þannig að fólk verður að nenna að lesa þetta. Þetta verður að vera skemmti­legt.“

Andnauð kom út hjá Storytel 13. júlí á þessu ári.
Mynd/Aðsend