Fyrsta glæpasaga Jóns, Andnauð, fjallar um lögreglukonuna Láru sem þarf að takast á við mál sem teygir anga sína vítt um íslenskt samfélag. Hljóðbókin er lesin upp af Vigdísi Hrefnu Pálsdóttur og Haraldi Ara Stefánssyni.
Jón Atli segir að hann geri sér grein fyrir því að gríðarlega sterk hefð sé fyrir glæpasögum á Norðurlöndunum og segir að Ísland sé þar engin undantekning.
„Maður er mögulega með mjög kröfuharða lesendur. En það sem mér fannst mjög áhugavert við hljóðbókarformið er að þetta er fyrst og fremst eitthvað sem fólk hlustar á. Ég treysti mér kannski aðeins betur í það heldur en að fara að gefa út einhverja glæpasögu fyrir jólin,“ segir Jón en hann telur að við hljóðbókagerð þurfi að hafa ákveðna hluti í huga. „Það er kannski einhver að hlusta á þetta sem er að vaska upp og sá þarf að vita hver mælir,“ segir Jón og tekur fram að umgjörð Storytel hvað þetta varðar sé frábær.
„Þau hjá Storytel eru með mjög gott teymi sem er ofboðslega meðvitað um þetta. Þannig færðu hina hefðbundnu ritstjórnarvinnu en svo kemur þetta inn aukalega og þá er verið að hugsa um hluti eins og hvaða tónlist á við hverju sinni og hver hentar í hvaða hlutverk og þetta er eitthvað sem þau liggja yfir og skiptir máli.“
Reynsla úr sjónvarpsframleiðslu
Reynsla Jóns Atla kemur aðallega úr leikhúsi og handritavinnslu fyrir sjónvarp en hann hefur um áraraðir starfað á þeim grundvelli.
„Það eru að verða einhver 10 ár síðan ég fór að vinna í sjónvarpsseríum og það geri ég enn þá en meira á erlendum vettvangi,“ segir Jón og bætir við: „Oftar en ekki eru þetta aðlaganir á glæpasögum sem breyta á í sjónvarpsseríur svo að þannig datt ég inn í þetta.“
Jón Atli segir að vinna hans við glæpaseríur hafi gefið honum reynslu sem hjálpaði við skrifin.
„Maður lærir handverkin sem þurfa að vera á tæru. Mikið af þessu er söguþráður og persónur. En bæði frá þessu og leikhúsinu þá hafði ég það bakland að geta skrifað samtöl og skapa karaktera. Svo það var ekki eins og ég kæmi alveg ósnortinn að þessu,“ segir Jón Atli, sem útilokar ekki að verkið gæti verið kvikmyndað í framtíðinni.
„Já, já, ég held að þar sem ég hef verið svo lengi að vinna með myndrænan texta svo jú, það yrði eflaust frekar auðvelt að kvikmynda þetta,“ segir Jón, sem segir að glæpasagan sem form bjóði upp á margvísleg tækifæri til að varpa ljósi á mismunandi þætti í samfélaginu.
„Það eru oft margar samfélagslegar hugmyndir, ákveðin norm, sem er þægilegt að koma á framfæri í einhverju eins og glæpasögu. Svo er önnur krafa, sem ég þekki vel eftir öll þessi ár þar sem ég var að vinna í alls konar hlutverkum í handriti og þróun í sjónvarpsseríum, þá er þetta þannig að fólk verður að nenna að lesa þetta. Þetta verður að vera skemmtilegt.“
