Það er fastur liður hjá mörgum fjölskyldum að kíkja á Þjóðminjasafnið á aðventunni. Þjóðminjasafnið hefur um árabil tekið á móti fjölskyldum og kynnt rammíslenskar jólahefðir fyrir nýjum kynslóðum barna, meðal annars með heimsóknum frá íslensku jólasveinunum, Grýlu og Leppalúða.

Pottaskefill ásamt Grýlu, móður sinni.

Ár hvert eru Grýla og Leppalúði vön að koma við á Þjóðminjasafninu stuttu áður en jólasveinarnir koma til byggða og á morgun, sunnudaginn 5. desember, ætla þau hjónin að kíkja í heimsókn en fram undan er skemmtileg dagskrá næstu vikurnar fram að jólum, segja þær Anna Rut Guðmundsdóttir, vefstjóri Þjóðminjasafnsins, og Anna Leif Auðar Elídóttir safnkennari. „Hljómsveitin Vísur og skvísur mun flytja nokkur lög á meðan beðið er eftir Grýlu og Leppalúða, en gert er ráð fyrir að þau mæti í hús um kl. 14. Það er strax orðið fullbókað á viðburðinn á morgun. Við viljum minna gesti á að þar sem fjöldatakmarkanir eru í gildi eru skráningar nauðsynlegar á viðburði hjá okkur á aðventunni en þeim verður einnig streymt í gegnum YouTube-rás safnsins,“ segir Anna Rut.

Jólatré úr safneign inniheldur jólatré frá því snemma á 20. öld og fram undir 1970.

Jólasveinar mæta

Jólasveinarnir þjóðlegu mæta svo í sínu fínasta pússi í Þjóðminjasafnið á slaginu kl. 11, frá og með sunnudeginum 12. desember að sögn Önnu Leifar. „Jólasveinarnir klæðast fatnaði af gamla taginu og útskýra kenjar sínar og klæki fyrir börnunum og öðrum gestum safnsins. Eins og venjulega er það Stekkjastaur sem er fyrstur til byggða og mætir hann í hús til okkar á sunnudaginn eftir rúma viku. Þessir viðburðir verða einnig í streymi í gegnum YouTube-rás safnsins. Við munum þó alltaf geta tekið á móti gestum líka, en nánari útlistun á því verður kynnt á heimasíðu safnsins þegar nær dregur.“

Gáttaþefur skemmtir hér hressum skólahópi.

Jólatré úr safneign

Undanfarin ár hefur Þjóðminjasafnið sett upp sýningu á gömlum jólatrjám sem margir muna eflaust eftir af æskuheimilum sínum eða úr stofum ömmu og afa eða langömmu og langafa. „Þessi jólatré eru frá því snemma á 20. öld og fram undir 1970. Trén eru úr safneign Þjóðminjasafnsins og eru til sýnis á annarri hæð safnsins.“ Fyrstu jólatrén bárust til Norðurlanda laust eftir 1800 og náði hefðin einna fyrst rótfestu í Kaupmannahöfn að þeirra sögn. Fyrstu heimildir um jólatré á Íslandi eru frá miðri 19. öld. „Jólatréð varð þó ekki sjálfsagður hluti jólanna á íslenskum heimilum fyrr en eftir aldamótin 1900. Þau munu fyrst hafa sést hjá dönskum kaupmönnum og íslenskum embættismönnum sem kynntust þessum sið í Kaupmannahöfn. Á síðustu áratugum 19. aldar fjölgaði jólatrjám meðal hinna efnameiri og fyrir aldamótin 1900 má sjá jólatré og jólatrésskraut auglýst í verslunum. Heimatilbúin jólatré voru hins vegar algengust meðal almennings fram undir miðja 20. öldina.“

Jólatré frá 1950-1960 með skrautkúlum og mjóum gervikertum.

Á sýningunni má skoða tíu tré og það elsta er frá 1910. „Trén eru bæði heimasmíðuð og innflutt. Elsta tréð er úr viði, nú klætt með grænum glanspappír. Á greinarnar eru límdar skrautlengjur sem eru klipptar út úr gjafapappír. Svo er eitt jólatré frá árinu 1927. Það er ríkulega skreytt og sú saga fylgir trénu að skrautið hafi aldrei verið tekið af því að jólum loknum. Í gegnum árin hafi aftur á móti skrauti verið bætt á það.“

Sívinsæll Jólakattarratleikur

Eins og undanfarin ár hefur Jólakötturinn sloppið inn á Þjóðminjasafnið og falið sig á tíu stöðum innan um muni sýningarinnar. „Þennan skemmtilega ratleik má nálgast í móttöku safnsins og er til bæði á íslensku og ensku. Gestir safnsins geta tekið þátt í honum fram til 6. janúar og er hannskemmtilegur kostur fyrir fjölskyldur og alls kyns hópa.“

Silfurlitað gervijólatré frá 1955-1960, innflutt frá Englandi.

Stofan er alltaf notaleg

Að lokum má nefna að í Stofu á þriðju hæð Þjóðminjasafnsins er hægt að láta fara vel um sig, máta búninga, föndra, lita jólamyndir, leika sér og spila. „Í skápum Stofunnar eru gripir úr geymslum safnsins. Gripirnir vekja margar spurningar og eru frá mismunandi tímabilum sögunnar. Auk þess má finna mikið úrval af jólaskrauti og jólagjöfum í safn- og vefversluninni okkar.

Nánari upplýsingar um jóladagskrána má finna á thjodminjasafn.is/jol. Aðgöngumiði í Þjóðminjasafnið kostar 2.000 kr. og gildir í heilt ár. Frítt er fyrir börn yngri en 18 ára.