Jómfrúin var stofnuð í janúar 1996 af föður Jakobs og eiginmanni hans, Guðmundi Guðjónssyni. „Pabbi lærði smurbrauðsfræðin hjá Idu Davidsen í Kaupmannahöfn og hafði lengi gengið með þann draum að opna sinn eigin veitingastað. Tilviljun réði því að þessi staðsetning varð fyrir valinu og hefur Jómfrúin verið hér við Lækjargötu allar götur síðan í þennan aldarfjórðung,“ segir Jakob.

Byrjuðu með tvær hendur tómar

„Það gekk á ýmsu til að byrja með og það er ekki ofsögum sagt að pabbarnir mínir hafi byrjað með tvær hendur tómar og báru fyrstu árin svolítið merki þess. Peningar voru hvorki settir í glæstar innréttingar né íburð og til að mynda var opnunartíminn bara til 18 og lokað á sunnudögum. Þannig gátu þeir unnið alltaf sjálfir á lúsarlaunum og haldið launakostnaði í lágmarki. Ég held að menn opni almennt ekki staði í dag með þessum hætti. Eftir 2-3 ár í rekstri var hins vegar orðið brjálað að gera, það tók þann tíma fyrir orðróminn um Jómfrúna að berast út, segja má að þannig hafi það haldist síðan.“

Rauðsprettan allra vinsælust

Þegar Jakob er inntur eftir því hvaða smurbrauð hafi verið vinsælast frá upphafi, stendur ekki á svari: „Rauðsprettan – ingen over. Ingen ved siden. Danir sem hingað hafa komið segja hana mikið mun betri en heima fyrir. En svo verður að nefna purusteikina með sýrðu grænmeti og soðsósu af heitu réttunum svona sögulega séð. Af nýjum réttum á matseðlinum okkar er hægt að nefna Roastbeef Bernaise sem er með stökkum „kartoffelchips“, sultuðum rauðlauk og bernaise-majónesi, en einnig get ég sagt frá reyktri andarbringu með piparrótarrjóma og kryddjurtum sem slegið hefur í gegn. Hún er soldið jólaleg en aðventan á líka stóran sess í hjarta Jómfrúarinnar sem okkar mesta háönn ársins, svo það má segja að það sé viðeigandi að hafa einn svona „jólarétt“ allt árið um kring.“

Brauð sem við köllum bara „vegan smörrebröd“ sem er sólkjarnarúgbrauð með edamame hummus, lárperu og radísuspírum.

Lengsti ákavítislisti landsins

Hafa orðið breytingar á rekstrinum? „Já, ég segi stundum að við höfum breytt öllu en samt engu. Enda var ekki um að ræða breytingar breytinganna vegna. heldur endurbætur í víðasta skilningi. Við pabbi vorum sammála um að margt í innréttingum og andrúmsloftinu sem ríkti á Jómfrúnni mætti „modernisera“, enda eðlilegt að hlutir láti á sjá á 20 ára tímabili. Það var leiðarljósið í þeim framkvæmdum sem við fórum í. Að gera hluti þannig úr garði að gestir, og ekki síður starfsfólk. gæti fengið meira út úr veru sinni á Jómfrúnni.

Við bjuggum til bar, gerðum hlýlegra innanhúss með efnisvali, lýsingu og bættri hljóðvist, auk þess sem við bættum starfsmannaaðstöðu og vinnuaðstöðu okkar starfsmannanna. Opnunartíminn var lengdur og matur og drykkir þróaðir samhliða því, við erum til dæmis með lengsta ákavítislista landsins og þó víðar væri leitað. Ég er líka svo heppinn að hafa Óla bróður minn með mér í þessu öllu sem veitingastjóra og þar að auki sem menntaðan framreiðslumann. Við vinnum mjög vel saman ásamt okkar góða fólki.

Oft er sagt að tölurnar tali sínu máli og þær segja okkur að við höfum gert rétt.

Ákavítis- og rauðbeðugrafinn lax á súrdeigsbrauði með með lárperu og kryddjurtum.

Auka alúð á afmælisári

Margt spennandi er fram undan á afmælisárinu og aðspurður segir Jakob að fyrst og fremst verði hlúð að því sem vel hefur verið gert. „Það eru vissulega áskoranir í því að halda árslangt afmæli á tímum þar sem strangar skorður eru settar á gestafjölda. Það er jú grundvöllur farsæls veitingarekstrar að fólki sé heimilt að koma saman og sem betur fer horfir til betri vegar í þeim efnum.

Roastbeef bernaise með stökkum „kartoffelchips“, sultuðum rauðlauk og bernaise-majónesi.

Við höfuð því ekki blásið í stóru lúðrana til að fagna afmælinu okkar og ætlum ekki að gera það. Við viljum og ætlum í staðinn að leggja bara auka alúð við það sem við teljum okkur hafa gert vel alla tíð, það að vera gestrisin og góð heim að sækja. Þó get ég nefnt það að við ætlum að hafa djassprógramm sumarsins einkar veglegt og stefnum á útgáfu bókar fyrir árslok, sem verður jólagjöfin fyrir sælkerann og „veitingaspekúlantinn“.

Einnig höfum við hafið sölu á frábæru kampavíni sem við höfum í einkasölu hér á landi og þannig viljum við bjóða landsmönnum að skála saman á Jómfrúnni við sig og sína og fyrir Jómfrúnni.“