Jólin snúast fyrst og fremst um samveru, að sögn Ragnars Freys Ingvarssonar, sem er betur þekktur sem Læknirinn í eldhúsinu. „Fyrir mér snúast jólin um að vera með fjölskyldunni og skapa góðar minningar fyrir börnin. Við ætlum að sjálfsögðu að baka, ætli við gerum ekki piparkökur og súkkulaðibitakökur eins og oft áður. En fyrst og fremst ætlum við að vera saman. Um það snúast jólin.“

Hann segist vera íhaldssamur jólakokkur sem horfi til hefðanna þegar jólamaturinn er eldaður.

„Ég hef oft eldað rjúpur áður, en núna ætla ég að gefa þeim sérstakan gaum. Ég veiddi nokkrar rjúpur sem ég ætla bæði að elda með hefðbundnum hætti (sem ég gjarnan kalla að skemma rjúpurnar) og svo með aðeins nýstárlegri aðferð.“

Þar sem Ragnar er á vakt á aðfangadag mun aðaleldamennskan eiga sér stað á jóladag.

„Lífið er oftast aðeins afslappaðra á jóladag og ég er ekkert síður íhaldssamur á þessum degi. Síðan að ég man eftir mér höfum við haft kalkún á jóladag og það verður ekkert öðruvísi í ár. Þó ætla ég að vera aðeins djarfari og breyta aðeins út af vananum hvað fyllinguna snertir. Núna ætla ég að fara á nýjar brautir og byggja á uppskrift bróður míns, Kjartans, sem er mín hægri hönd í eldhúsinu. En ég verð íhaldssamur sem endranær þegar kemur að sósugerðinni.“

Hér að neðan gefur Ragnar Freyr lesendum ljúffengar uppskriftir af nýrri fyllingu með kalkúni, kalkúnasósu og sætum hasselback kartöflum með pekanhnetum og hlynsírópi.

Þessi sósa er góð og einföld að sögn læknisins í eldhúsinu.

Besta og einfaldasta kalkúnasósan

500 ml kalkúnasoð (uppskrift fylgir)

60 g smjör

30 g hveiti

vökvi af kalkúninum

skvetta af rjóma

1 tsk. rifsberjasulta

salt og pipar

Kalkúnasoð:

Háls og hjarta af kalkún

1 gulrót

1 sellerístöng

1 hvítur laukur

smjör

salt og pipar

700 ml vatn

kalkúnasoð eftir smekk

150 ml hvítvín

3 einiber

1 lárviðarlauf

Byrjið á því að útbúa kalkúnasoðið.

Bræðið smjörið og brúnið kalkúnahálsinn og hjartað að utan í smjörinu. Saltið og piprið. Þegar hálsinn og hjartað er fallega brúnað bætið smátt söxuðu grænmeti saman við og mýkið vandlega. Hellið víninu yfir og sjóðið upp áfengið og sjóðið niður um helming. Bætið vatni og kalkúnasoði saman við, ásamt kryddjurtum og sjóðið í 45 mínútur þangað til að um 500 ml eru eftir í pottinum. Hellið í gegnum sigti. Hérna eruð þið komin með hálfan lítra af kalkúnasoði.

Bræðið helminginn af smjörinu í potti og blandið svo hveiti saman við og búið til smjörbollu. Þegar hún hefur tekið sig, hellið þá kalkúnasoðinu saman við og hrærið vandlega saman þannig að smjörbollan sé fullkomlega uppleyst.

Bragðbætið með rjóma, sultu, salti og pipar þangað til að sósan bragðast dásamlega. Hrærið afganginum af smjörinu saman við til að fá fallegan gljáa.

Kalkúnafyllingin er ótrúlega bragðmikil og góð.

Ný fylling með kalkúninum

2 gulir laukar

250 g sveppir

2 stangir sellerí

4 hvítlauksrif

500 g svínahakk

100 g trönuber

100 g pekanhnetur, saxaðar

100 g smjör

2 græn epli, kjarnhreinsuð og skorin í teninga

5 msk. hökkuð fersk steinselja

2 bollar fersk brauðmylsna

2 msk. ferskt rósmarín

2 tsk. timian

2 tsk. salvía

2 msk. hlynsíróp

Handfylli af brauðmylsnu

Saxið laukinn, selleríið, sveppi og hvítlaukinn smátt og steikið í þriðjung af smjörinu við lágan hita í tæpan hálftíma. Gætið þess að brenna ekki laukinn. Hann á að karamelliserast. Setjið í skál.

Steikið grísahakkið, saltið og piprið, og brúnið ágætlega í þriðjungi af smjörinu. Bætið nú við því sem eftir er af hráefnunum og blandið vel saman á pönnunni. Þegar allt ilmar dásamlega, blandið saman við laukinn, sveppina, selleríið og hvítlaukinn.

Setjið afganginn af smjörinu á pönnuna og steikið niðurskornu eplin þangað til þau fara að taka lit. Setjið í skálina og blandið vel saman.

Færið fyllinguna í smurt eldfast mót og stráið brauðmylsnunni yfir. Bakið í ofni í þrjú korter eða þar til hún er fallega brúnuð að ofan.

Sætar hasselback kartöflur með pekanhnetum og hlynsírópi fara einstaklega vel með kalkúni.

Sætar hasselback kartöflur með pekanhnetum og hlynsírópi

8 meðalstórar sætar kartöflur

100 g pekanhnetur

100 g smjör

50 g hlynsíróp

1 tsk. vanilludropar

salt og pipar

Skolið kartöflurnar vandlega og þerrið. Skerið djúpt í kartöflurnar en gætið þess að þær hangi saman. Penslið með smjörinu, saltið og piprið. Bakið í 180 gráðu heitum ofni í 45 mínútur.

Bræðið smjörið í potti og blandið svo saman við hlynsírópi, vanilludropum, pekanhnetum, salti og pipar. Takið kartöflurnar úr ofninum og glennið þær aðeins upp. Setjið hnetu-, síróps-, smjörblönduna ofan á þannig að það fylli vel í glufurnar.