„Það eru eiginlega búin að vera jól hjá mér allt árið,“ segir Birgitta Haukdal, en um helgina verður Lára og Ljónsi – jólasaga frumsýnd á Litla sviði Þjóðleikhússins.

Birgitta byrjaði árið á því að taka upp gömlu góðu jólalögin fyrir jólabók Láru og Ljónsa og eyddi sumrinu í að semja lög fyrir leiksýninguna. Svo hafa margir klukkutímar farið í að fínpússa leikverkið, sem hún samdi ásamt Guðjóni Davíð Karlssyni eða Góa.

Verkið gerist á aðventu og jólasveinarnir eru farnir að tínast til byggða og gefa börnum í skóinn. En eina nóttina hverfur Ljónsi, uppáhaldsmjúkdýrið hennar Láru, sem er enginn venjulegur bangsi. Getur verið að hvarf hans tengist jólasveinunum á einhvern hátt? Stórt er spurt.

Fyrstu Láru-bækurnar komu út árið 2015 og viðurkennir Birgitta að það hafi verið stórkostlegt að sjá hana lifna við hjá Þóreyju Birgisdóttur sem leikur Láru. „Hún tikkaði í öll box og það var æðislegt að sjá hana verða til. Þórey hefur notalega orku og það geislar svo af henni. Ég fékk svo Maríu Ólafsdóttur með mér í búningana og hún setti punktinn yfir i-ið.“

Vinirnir Lára og Ljónsi hafa verið lesin fyrir svefninn síðan 2015.

Birgitta segir að hún og Gói hafi tekið sér góðan tíma í að skapa verkið, en Birgitta skrifaði drög að því árið 2017. „Þegar sagan var tilbúin þá kom enginn annar til greina til að vinna hana áfram en Gói. Hann hefur ótrúlega hæfileika og veit hvernig á að gera skemmtilega sýningu, fyrir utan að vera frábær leikari og leikstjóri.

Við tókum okkur tvö ár í að henda hugmyndum á milli þangað til við vorum orðin sátt við að halda áfram og við fórum með þetta í Þjóðleikhúsið sem var tilbúið að taka séns með okkur.“

Uppselt er á flestar sýningar af jólasögunni en Birgitta segir að verið sé að vinna í að finna fleiri dagsetningar. „Viðtökurnar fóru fram úr okkar björtustu vonum. Það fylltist allt nánast um leið og sýningin fór í sölu. Krakkarnir eru greinilega spenntir að sjá Láru og Ljónsa á sviðinu og eiga fallega stund með foreldrum sínum.“