Andrea Magnúsdóttir fatahönnuður og eigandi fata- og skóverslunarinnar Andrea by Andrea í Hafnarfirði fer alltaf í fallegan kjól á jólunum en segist ekki vera búin ákveða hver verður fyrir valinu í ár.

„Ég er rosa mikil kjólakona en er ekki búin að velja mér fyrir þessi jólin enda eru ekki allir kjólarnir komnir. Ég hef þó augastað á einum sem er afar glitrandi með steinum, Þessi tími er tími til að skína,“ segir Andrea.

Aðspurð segir Andrea jólafötin í ár vera glitrandi í bland við liti og jarðtóna, „Pallíettukjólar, kjólar og samfellur með steinum og pallíettubleiserar eru áberandi yfir hátíðirnar í bland við skæra liti, beige og jarðliti,“ upplýsir Andrea og segir skæru litina nokkuð nýja á nálinni og fólk óhræddara við að klæðast þeim.

„Það er eitt sem er mikið í ár og hefur ekki endilega alltaf verið en það er rosalega mikið um jakkaföt. Þannig jólakjóllinn gæti verið jakkaföt,“ segir Andrea

„Þegar við klæðum okkur úr þessu svarta sem er alveg ágætt líka stundum þá gera litir eitthvað fyrir okkur það er bara þannig. Mér finnst eftir því sem ég verð eldri gera það mikið fyrir mig að vera í ljósum tónum, það lífgar mann upp,“ segir Andrea.

Pallíettur og glimmer er alltaf hátíðlegt.
Fréttablaðið/Aðsend
Kjólar úr jólalínu Andreu 2022.
Fréttablaðið/Aldís Pálsdóttir

Byrjar jólin í maí

Andrea hefur verið viðloðin tískubransann síðan hún var nítján ára og opnaði síðan eigin verslun Andrea by Andrea árið 2009 sem hefur notið mikilli vinsælda hér á landi fyrir hennar fallegu og einstaka hönnun, auk þess sem hún opnaði skóverslun í einstaklega fallega bleiku húsi í hjarta Hafnarfjarðar.

Að sögn Andreu eru jólin hennar ansi löng og strembin vinnulega séð. „Ég byrja að hanna jólakjólinn kannski í maí og er eiginlega komin nóg af jólunum þegar það fer að hausta,“ segir Andrea og hlær en segist fara aftur í jólaskap þegar desember er genginn í garð.

„Við vinnum á aðfangadag og alla daga fyrir jól. Það er ótrúlega gaman að hitta alla og maður segir gleðileg jól um það bil 8777 sinnum,“ segir Andrea glaðvær og skín í gegn hvað henni er annt um að aðstoða fólk að velja gjafir fyrir ástvini sína.

Aðspurð hvernig jólin hennar eru: „Ég er fer alltaf í flottan kjól og það kemur bara einhver orka með því um leið og þú ert komin í kjól eða flott föt, þá verður allt hátíðlegra og fallegra,“ segir Andrea sem nýtur hátíðarinnar í faðmi fjölskyldunnar. „Við erum öll saman, foreldrar mínir, bræður og börn svo það eru brjáluð pakkalæti, bara allt eins og það á að vera,“ upplýsir Andrea.

Falleg jakkaföt eru vinsæl þessi misserin.
Fréttablaðið/Aðsend
Rykfrakkar eru í uppáhaldi hjá Andreu fyrir hvaða tilefni sem er. Andrea hannaði leðurfrakka í alls kyns litum.
Fréttablaðið/Aðsend

Áramótin uppáhalds dagur ársins

„Áramótin er uppáhalds kvöldið mitt í lífinu,“ upplýsir Andrea og heldur áfram: „Það var þannig að mér fannst einu sinni ekki gaman á gamlárskvöld svo ég ákvað að breyta því og held alltaf partí við fjölskylduna mína og alla þá sem vilja dansa. Það er svo gaman að skemmta sér með fólkinu sínu sem er á öllum aldri,“ segir Andrea: „Það er magnað að maður getur breytt til sjálfur, ég er svo ánægð með það.“

„Síðan finnst öllum svo gaman að vera inni að dansa langt fram eftir að það nennir enginn úr að sprengja. Litlu frænkur mínar geta ekki beðið og eru alltaf að spyrja hvenær partíið sé eiginlega,“ segir Andrea og hlær.

Kvöldið til að overdressa

Heimili Andreu fer í glimmerbúning líkt og gestirnir, húsið er skreytt hátt og lágt með kögurveggjum og glimmeri. „Ég er alltaf í pallíettum á gamlárskvöld eða einhverju sem glitrar,“ upplýsir Andrea og bætir við að þetta sé kvöldið til að overdressa. „Það er líka svo gaman að klæða sig upp fyrir gamlárskvöld og setja á sig skart eða rauðan varalalit þá verðuru instant fín og setur punktinn yfir i-ið.“

Andrea glæsileg í glitrandi silfur kjól
Fréttablaðið/Aðsend
Áramótapartíin hjá Andreu eru bersýnilega afar skemmtileg.
Fréttablaðið/Aðsend