Ykkur er boðið í jólaboð. Ekki eitt heldur um eitt hundrað, yfir heila öld. Óskar og Jóhanna bjóða ykkur velkomin til borðs en síðan taka afkomendur þeirra við, kynslóð eftir kynslóð, alltaf í sömu stofunni. Hefðir eru órjúfanlegur hluti af hátíðarhaldinu en eins og mannfólkið þá breytast þær með tímanum, við tökum bara ekki endilega eftir því. Þó höfum við sterkar skoðanir á hvernig hlutirnir eiga að vera, um hvað er rætt og hverjir eru boðnir velkomnir í jólaboðið.

Hjarta sýningarinnar

Jólaboðið er byggt á tveimur leikritum; tæplega hundrað ára einþáttungi eftir Thornton Wilder og yngra norsku leikverki eftir Tyru Tønnesen. Handritið er aðlagað íslenskum raunveruleika og þjóðarsögu af Gísla Erni Garðarssyni, sem einnig leikstýrir, og Melkorku Teklu Ólafsdóttur, sem er sömuleiðis dramatúrg sýningarinnar. Erfitt er að gera sér grein fyrir áhrifum norska verksins en fjölskyldusagan er römmuð inn í tíðaranda hverrar stundar sem snertir á ýmsum samfélagsmálum svo sem kvenréttindum, kapítalisma og Kananum. Þrátt fyrir að vera kjarni sýningarinnar er félagsleg og fjárhagsleg staða fjölskyldurnar í áranna rás fremur óljós.

Flestir í leikhópnum fara með tvö hlutverk, ættliðirnir sem fjölga sér og hverfa. Nína Dögg Filippusdóttir er sú eina í leikhópnum sem leikur sama karakterinn alla sýninguna, hina hliðarsettu Margréti, frá barnæsku til efri áranna. Hún leysir hlutverkið ágætlega með rísandi bugun og brostnum væntingum, litlum hreyfingum sem tjá falinn harm. Vinátta Margrétar og Óskars yngri, sem leikinn er af Baldri Trausta Hreinssyni, verður að eiginlegu hjarta sýningarinnar. Það endurspeglar ágætlega hitt hlutverk Baldurs Trausta sem Róberts, hermannsins sem Margrét fær ekki að eiga. Gallinn er sá að bæði hlutverkin eru undirskrifuð og skortir baksögu en Baldur Trausti sýnir styrkleika sinn sem leikari og finnur hjarta í þeim báðum.

Spennandi orka

Ebba Katrín Finnsdóttir leikur Guðmundínu, yngri systur Margrétar og konuna sem rólega umbreytist í móður sína, af festu en með fáum blæbrigðum. Aftur á móti kemur hún með nýja og spennandi orku inn í seinni hluta sýningarinnar þegar hún spígsporar inn á sviðið og skellir samtímanum með sprengikrafti á sviðið í hlutverki Maríu.

Ólafía Hrönn Jónsdóttir leikur Jóhönnu yngri og Jóhönnu eldri, aðþrengdu húsfrúna og frjálslynda ömmubarnið. Augnablikið þegar Jóhanna yngri segir skýrt nei en vill af öllu afli segja já er eitt áhrifamesta atriði sýningarinnar. Ólafía Hrönn hefur þann einstaka hæfileika sem leikkona að finna stóran sannleika í smáum setningum.

Augnablikið þegar Jóhanna yngri segir skýrt nei en vill af öllu afli segja já er eitt áhrifamesta atriði sýningarinnar.

Guðjón Davíð Karlsson og Þröstur Leó Gunnarsson leika húsbændur heimilisins, sá fyrri maðurinn sem stofnaði fjölskylduheimilið og hinn síðari aðkomumaðurinn frá Bíldudal sem tekur við keflinu. Bestu senur Guðjóns Davíðs eru þó í hinu hlutverkinu sínu sem hinn byltingarsinnaði Bárður sem kemur eins og hvirfilvindur inn í fjölskylduna. Þröstur Leó finnur sig vel í hlutverki Bílddælingsins Ragnars og fangar fallega hversu erfitt er fyrir eldri kynslóðina að umbera óumflýjanlegar breytingar, þetta gerir hann með augnaráðinu einu.

Vel er við hæfi að Gunnar Smári Jóhannesson og Ragnheiður Steindórsdóttir leiki hjón í Jólaboðinu. Aldursmunur þeirra einkennir breidd leikhópsins og reynslu leikaranna, sumir eru að stíga sín fyrstu skref, aðrir með áratugi í pokahorninu. Gunnar Smári er enn að finna fótfestu á fjölunum og hefur á brattann að sækja, að umbreytast í ungan mann í hruman. En margt gerir hann vel, orkuboltinn Jón Ægir er bráðskemmtilegur og tilfinningaríkur. Ragnheiður blómstrar í hlutverki Sigrúnar en á aðeins erfiðara með gelgjuna Bríeti.

Látlaus umgjörð

Garðar Örn fer frjálslega með hlutverkaskipan hvað aldur varðar sem er stundum hressandi en á öðrum stöðum fremur hjákátlegt, aðallega þegar börnin mæta á svæðið. Umgjörðin er greinilega innblásin af leiklýsingum Wilders en hann leggur fram bæði fábrotnu leikmyndina og skortinn á leikmununum, reyndar líka grunn að því hvernig persónur mæta dauða sínum. Atriðið í bíóinu er eina skiptið sem er stigið út úr sparistofunni. Frávikið er svo sannarlega kómískt en stingur í stúf við heildina. Sviðið er strípað, þegar sú aðferð er nýtt verður líkamsbeiting og táknfræði hreyfinganna að vera meira afgerandi en sést hér. Góðar hugmyndir á borð við taktföstu hreyfingarnar við matarborðið og fjölskylduljósmyndatakan virðast fjara út þegar líða tekur á verkið, kannski í takt við handritið sjálft.

Fagurfræði og umgjörð Jólaboðs er eins og áður var sagt mjög látlaus. Börkur Jónsson hannar leikmyndina af skynsemi og smíðar spennu á sviðinu bæði með þrepunum og bakrammanum, sem hefði þó verið hægt að nýta oftar. Búningar Helgu I. Stefánsdóttur einkennast af svörtum lit sem læðist út í bláma með líðandi stund, sem endar eftirminnilega með einkennisklæðnaði ungs drengs sem flestir foreldrar þekkja. Föt unga fólksins frá áttunda áratugnum hefðu mátt umbreytast með tíðarandanum. Önnur tæknivinna sem og listræn kemst vel til skila en tónlistin þyrfti að skilja meira eftir sig og spyrja má hvort öll leikrit þurfi nauðsynlega að hafa titillag?
Fbl_Megin: Jólaboðið býður upp á hinar ýmsu leikhúskræsingar og kruðerí en líður fyrir handrit sem hefði mátt vinna betur og dýpka. Síðasta jólaboðið og atriði sýningarinnar inniheldur hreinræktaða leikhústöfra, viðkvæmur treginn snertir hinar innstu hjartarætur með djúpum skilningi á mannlegum breyskleika og margbreytileika sem væri óskandi að sýningin í heild sinni hefði náð að koma á framfæri.

Niðurstaða:

Ljúfsár sýning krydduð með léttum fjölskylduerjum og kómísku jólastressi en skortir heildstæða nálgun.